139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[02:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar fund minn með Olli Rehn og að ég skuli enn þá vera með heilbrigðar skoðanir verð ég að viðurkenna að það kom furðusvipur á þann mæta mann þegar ég upphóf raust mína. Honum, ef ég á að útskýra þetta á kurteisan hátt, varð ljóst að það var áherslumunur í íslensku sendinefndinni. Ég fullyrði að ég hélt þeim sjónarmiðum sem ég hef haldið í þessu máli frá upphafi, jafnvel í gegnum hádegisverð með Olli Rehn.

Þetta eru nefnilega stórar upphæðir. Þúsund milljónir, eins og ég sagði. Ég efast um að það verði niðurstöðutalan. Ég held að það verði miklu, miklu meira. En hvað er hægt að gera fyrir þúsund milljónir? Hvað er hægt að gera fyrir 40 milljónir sem verið er að setja í þessi upplýsingamál? Það er örugglega hægt að framkvæma fullt af kynjaðri hagstjórn, sem er áhersluverkefni þessarar ríkisstjórnar, þó að ég mundi ekki leggja á það áherslu.

Það er t.d. verið að biðja um í kringum 90 milljónir í Keili til að tryggja rekstrargrundvöll hans. 40 milljónir mundu hjálpa þeim. 65 milljónir sem utanríkismálanefnd gerði ósk um mundi hjálpa þeim. Allt tínist þetta til. Ég held að við ættum að hugsa um þetta, velta þessu fyrir okkur en umfram allt vitum hvað við erum að borga. Höldum heildstætt utan um þetta og vitum hvert við setjum þessa peninga.