139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[02:24]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég styð ekki fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp og breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar í óbreyttri mynd. Verið er að grafa undan velferðarkerfinu með því að halda dauðahaldi í aðgerðaáætlun AGS í ríkisfjármálum þrátt fyrir að hagvaxtarforsendur hennar séu algjörlega brostnar. Ef takast á að tryggja hagvöxt á næsta ári er afar brýnt að stjórnvöld bregðist við sífellt dekkri hagspám með minni niðurskurði ríkisútgjalda en efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir ráð fyrir.

Í endurskoðaðri þjóðhagsspá Hagstofunnar er reiknað með að landsframleiðsla dragist saman um 3% á árinu 2010 en vöxtur hennar fari í 1,9% á árinu 2011. Þetta eru mun dekkri horfur fyrir bæði árin en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlaði við gerð aðgerðaáætlunar í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013. AGS gerði ráð fyrir að enginn hagvöxtur yrði á þessu ári og að hann yrði rúmlega 3% á næsta ári.

Fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp byggir á þeirri forsendu að hagvöxtur verði 3,2% árið 2011, en nýlegar spár um hagvöxt gera nú ráð fyrir að vöxturinn verði mun minni eða á bilinu 1–2%. Þjóðhagsspáin gerir ráð fyrir að einn helsti drifkraftur hagvaxtar á næsta ári verði einkaneyslan. Litlar líkur eru á að spá um vöxt í einkaneyslu á næsta ári muni ganga eftir ef áætlun um niðurskurð ríkisútgjalda á næsta ári verður framfylgt. Fyrirhugaður niðurskurður mun leiða til fjöldauppsagna í t.d. heilbrigðisþjónustunni og margar stofnanir munu þurfa að draga verulega úr kaupum sínum á vörum og þjónustu frá einkaaðilum.

Aukið atvinnuleysi og minnkandi eftirspurn af völdum niðurskurðarins mun auka enn frekar á fjárhagserfiðleika fyrirtækja og heimila sem mörg hver hafa þurft að bíða í tvö ár eftir fjárhagslegri endurskipulagningu skulda sinna. Fjárfestingar og eftirspurn fyrirtækja og heimila mun minnka af völdum niðurskurðarins og skera þarf enn meira niður á árinu 2012 til að bregðast við minnkandi skatttekjum. Mikill kostnaður hlýst af því að halda hagkerfinu undir framleiðslugetu þar sem ónýttur mannauður, vélar, tæki og húsnæði fer forgörðum. Í hagfræðinni er talað um að ódýrara sé að slá lán en að láta hagkerfið vera undir framleiðslugetu í kreppu. Mikilvægt er að bregðast strax við vísbendingum um dýpri efnahagslægð en allar áætlanir gerðu ráð fyrir með því að fara hægar í að rétta halla ríkissjóðs eftir efnahagshrunið 2008 þannig að frumjöfnuður ríkissjóðs, þ.e. jöfnuður án fjármagnstekna og fjármagnsgjalda, verði orðinn jákvæður á árinu 2013 í stað ársins 2011.

Virðulegi forseti. Hægt væri, ef menn þyrðu að fara gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að fresta öllum niðurskurði næsta árs eða hluta hans, eins og í mennta-, heilbrigðis- og félagsmálum, með því að flýta skattgreiðslum á séreignarsparnaði sem myndast hefur vegna valfrjáls viðbótargjalds. Slík skattlagning mun draga úr vaxtagreiðslum ríkissjóðs vegna hægari niðurskurðar á næsta ári. Ef þessi leið er farin þarf að huga að fjármögnun hallarekstursins árin 2012 og 2013. Í því sambandi má benda á skattlagningu útstreymis fjármagns um leið og gjaldeyrishöftin verða afnumin.

Virðulegi forseti. Í dag er áætlað að sjóðsmyndun vegna valfrjáls séreignarsparnaðar sé um 100 milljarðar og skattlagning hans mundi því auka skatttekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga um 40 milljarða á næsta ári. Hlutur ríkissjóðs yrði um 35 milljarðar og hægt væri að nota skatttekjurnar til að fjármagna frestun niðurskurðarins sem á að nema um 33 milljörðum. Afganginn eða um 2 milljarða væri hægt að nota til að hækka lágmarksupphæð almannatrygginga. Lágmarksupphæðir eru langt frá því að duga fyrir framfærslukostnaði og biðraðir eru eftir mataraðstoð hjá hjálparsamtökum. Allar líkur eru á að samið verði um hækkun lágmarkslauna í komandi kjarasamningum og því raunhæft að reikna með hækkun lágmarksupphæða almannatrygginga.

Virðulegi forseti. Mikil andstaða hefur verið meðal margra stjórnarliða við að flýta skattlagningu séreignarsparnaðar til að fjármagna velferðarkerfið. Ástæðan er sú að verið sé að taka lán hjá framtíðarskattgreiðendum. Þetta sama fólk hefur talað af miklum ákafa fyrir því að komandi kynslóðir skattgreiðenda taki á sig 600 milljarða skuldbindingu vegna Icesave og 600 milljarða skuldbindingu til þess að byggja upp allt of stóran gjaldeyrisvarasjóð. Í ljósi þess að samdrátturinn í samfélaginu er mun meiri en allir gerðu ráð fyrir er mikilvægt að hækka ekki skatta sem leiða til hækkunar neysluverðsvísitölunnar og er íþyngjandi fyrir atvinnustarfsemi. Skattar sem æskilegt er að hækki á næsta ári eru auðlegðarskattur, erfðafjárskattur, sérstakur skattur á fjármálastofnanir og skattur á viðbótarheimild til úttektar á séreignarsparnaði, en gert er ráð fyrir að tekjur af þessum sköttum verði um 6,5 milljarðar.

Verja verður stórum hluta þessara skattahækkana í atvinnuskapandi verkefni sem miða að því að draga úr atvinnuleysi. Jafnvel þótt atvinnuleysi á þessu ári sé minna en reiknað var með er afar brýnt að tryggja sem flestum atvinnu og þar með tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi án aðstoðar velferðarkerfisins og hjálparsamtaka.

Virðulegi forseti. Efnahagsstefna AGS hefur nú þegar valdið atvinnumissi og verulegri þjónustuskerðingu í opinbera geiranum. Opinberum starfsmönnum hefur fækkað sem nemur 1.156 stöðugildum eða um 6,3% síðustu tvö ár. Enn fleiri munu missa vinnuna á næsta ári verði fyrirhugaður niðurskurður samþykktur og afar brýnt er að ríkisstjórnin hverfi frá skaðlegri efnahagsstefnu AGS þar sem hún hefur dýpkað kreppuna eins og tölur um samdrátt á þessu ári bera augljóst vitni um, en AGS gerði í nóvember 2008 ráð fyrir því að á þessu ári yrði enginn hagvöxtur en nú hefur komið í ljós að hann verður að öllum líkindum mínus 3% eða 3% samdráttur.

Virðulegi forseti. Ég get því miður ekki stutt þá efnahagsstefnu sem fjárlagafrumvarpið og breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar byggja á. Ég tel það beinlínis skaðlegt að taka ekki tillit til þess að hagvaxtarforsendur áætlunar AGS í ríkisfjármálum eru brostnar. Ég hef margoft varað við að halda áfram á braut AGS í niðurskurði á halla ríkissjóðs og lagt til frestun og skattlagningu séreignarsjóðsins en hvorki náð eyrum hæstv. fjármálaráðherra né meiri hluta þingflokks Vinstri grænna. Það eru vonbrigði að stjórnarmeirihlutinn skuli ekki hafa verið opinn fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef reifað í ræðu minni og gert mun róttækari breytingar á fjárlagafrumvarpinu.

Virðulegi forseti. Ég hef því ákveðið að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni á morgun í þeirri von að meiri hluti fjárlaganefndar sjái að sér og dragi verulega úr fyrirhuguðum niðurskurði á milli 2. og 3. umr. um fjárlögin.