139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[02:36]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort sjónarmiðin sem ég reifaði í ræðu minni hafi verið rædd í þingflokki Vinstri grænna. Svar mitt við þeirri spurningu er að ég hef reifað þessi sjónarmið frá því í vor. Eins og ég sagði í ræðunni hef ég því miður ekki náð eyrum meiri hluta þingflokks Vinstri grænna. Ég geri mér samt von um að umræðan sem hefur farið fram um fjárlagafrumvarpið og breytingartillögur hv. fjárlaganefndar verði til þess að nefndarmenn í meiri hluta fjárlaganefndar endurskoði breytingartillögurnar sem liggja fyrir.

Ég ætla ekki að gerast svo svartsýn að halda að það sé ekki hægt að rökræða við fólk og að fólk taki ekki rökum. Ég geri mér vonir um að það komi frekari breytingar inn sem miða að því að draga úr niðurskurðinum þegar við göngum til 3. umr. Ég mun síðan meta það þegar breytingartillögurnar koma í þingið hvort ég telji þær duga til. Ég mun jafnframt skoða aðrar breytingartillögur sem lagðar verða fram við 3. umr.