139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[02:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svörin sem voru afdráttarlaus eins og vænta mátti af hv. þingmanni. Eins og ég sagði áðan er staða málsins að verða býsna skýr eftir 2. umr. Ef við förum yfir breytingartillögurnar sem liggja fyrir verður ekki séð að í þeim felist nein grundvallarstefnubreyting frá fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í upphafi. Það sem mesta athygli vekur eru breytingar sem snúa að fjárveitingum til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Þar var staðan einfaldlega sú að ekki var pólitískur meiri hluti á Alþingi fyrir tillögunum eins og þær voru lagðar fram.

Það er sérkennilegt út af fyrir sig að leggja fram fjárlagafrumvarp þar sem fram kemur skýr stefnumörkun til mikilvægra málaflokka eins og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni án þess að fyrir því sé pólitískur meiri hluti. Það var hins vegar veruleikinn eins og við áttuðum okkur á. Það var ekki liðin vika frá því að fjárlagafrumvarpið var komið fram þangað til fram höfðu komið það margir þingmenn úr stjórnarliðinu að það lá fyrir að málið hafði engan stuðning í þinginu. Þess vegna átti ríkisstjórnin engan kost nema breyta út frá sínum kúrsi. Það var ekki þannig að ríkisstjórnin hefði vald á málinu. Hún hafði ekki vald á málinu vegna þess að þingmenn höfðu einfaldlega tekið af henni völdin.

Í ljósi þess að fjárlagafrumvarpið er að verða ansi skýrt eftir 2. umr. vil ég spyrja hv. þingmann: Mun hún styðja fjárlagafrumvarpið? Mun hún sitja hjá við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins ef ekki verða gerðar umtalsverðar breytingar á frumvarpinu? Eins og málin standa núna eru líkur á því að hv. þingmaður muni taka sömu afstöðu við 3. umr. nema við sjáum þeim mun róttækari breytingar á fjárlagafrumvarpinu? Ég tel satt að segja engar líkur á því.