139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[02:41]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns, áður en ég fer í efnislega umræðu um fjárlagafrumvarpið, koma inn á það að ég hef ekki haft tök á því að sækja fjárlaganefndarfundi eins dyggilega og ég hefði óskað. Það er vegna veikinda sem mæting mín hefur ekki verið sem skyldi. Það breytir því ekki að ég hef kynnt mér frumvarpið vel, fylgst með öllum umræðum og öllu sem lýtur að frumvarpinu, breytingartillögum, umsögnum, umsögnum allra undirnefnda og annað því um líkt. Ég hef verið í sambandi við einstakar stofnanir og fleira þessu tengt.

Af hverju segi ég þetta hér? Jú, vegna þess að í umræðunni í dag var komið inn á það að mæting einstakra þingmanna í fjárlaganefnd hefði verið slæleg og því var, að ég taldi, einkum beint til þess er hér stendur.

Þá ætla ég að fara í umræðu um fjárlagafrumvarpið. Mig langar að byrja á vinnulaginu við fjárlagagerðina almennt. Það ríkir mikill einhugur í fjárlaganefnd. Það er ágætissamstaða þar og þar vinna menn þvert á flokkslínur. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Oddný Harðardóttir, hefur lagt ríka áherslu á það og talað fyrir þeim sjónarmiðum og haldið ágætisvinnuanda í nefndinni. Það er þó svo að reifaðar hafa verið ýmsar hugmyndir að því hvernig hægt sé að breyta vinnuferlinu sem snýr að því hvernig fjárlagavinnan fer almennt fram. Það hafa verið reifaðar hugmyndir til að mynda um það að fjárlaganefnd sjálf og hugsanlega undirnefndir ákvarði rammann og skiptingu milli ráðuneyta og framkvæmdarvaldið útdeili því síðan.

Það er tilfinning mín og ég held að það sé ekki nýtilkomið að þetta sé lenska sem hafi lengi verið í vinnu við fjárlagagerð að skilin á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds séu óljós þegar kemur að gerð fjárlaga. Ég held að allar hugmyndir að breytingum í þá veruna að auka skilin þarna á milli séu af hinu góða. Það hefur verið þessi tvö ár sem ég hef starfað í fjárlaganefnd. Þessu er alls ekki beint gegn einstökum ráðherrum, hvorki hæstv. fjármálaráðherra sem flytur frumvarpið né einstökum nefndarmönnum. Ég hygg að þetta hafi verið með sama hætti í fyrri ríkisstjórnum. Breytingartillögur koma yfirleitt milli umræðna frá ríkisstjórn en verða í minna mæli til inni í nefndinni.

Ég nefni til að mynda tillögur um heilbrigðismál. Þegar lá ljóst fyrir að ekki væri einhugur um tillögurnar og að þær yrðu endurskoðaðar þegar fjárlagafrumvarpið yrði lagt fram þá var fjárlaganefndin sem hafði forræði á málinu sett í algjöran lás á meðan heilbrigðisráðuneytið vann að nýjum tillögum.

Ég nefni fleiri verkefni sem komu inn á síðasta ári og ég vík að seinna, sem er reyndar ekkert stórt verkefni, það er Sóknaráætlun 20/20, en milli umræðna í fyrra við fjárlagagerð 2010 komu í þetta 25 milljónir frá ríkisstjórninni. Ég gerði athugasemdir við þetta og ræddi þetta m.a. við nefndarritara og þingmenn í nefndinni. Það var ekki lenska að menn settu sig upp á móti tillögum sem kæmu frá ríkisstjórn án þess að viðkomandi þingmenn hefðu séð þær. Ég held að allt sem gæti aukið skilin þarna á milli sé jákvætt. Ég veit að hv. formaður fjárlaganefndar hefur verið áhugasöm um þetta og ég styð hana í því efni.

Aðeins að forsendum fjárlaganna og örlítið að því sem hv. þm Lilja Mósesdóttir . kom inn á áðan þá er það vissulega áhyggjuefni hvernig hagvaxtarhorfur eru. Ef við skoðum áætlunina sem lagt var upp með með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var gert ráð fyrir því að hagvöxtur á árinu sem er að líða yrði 0% í upphaflegum áætlunum. Tölurnar sem notaðar voru síðan við vinnslu fjárlaga 2010 gerðu ráð fyrir 1,9% samdrætti. Þá þegar vorum við komin 1,9% undir upphaflega áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nú sýnir reynslan hins vegar að samdrátturinn er 3% þannig að frá upphaflegri áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hann neikvæður um 3%. Þetta eru staðreyndir. Ég held að þetta sé, hvað sem menn tala um svartsýnishjal og annað, eitthvað sem við þurfum virkilega að hafa áhyggjur af.

Áætlun AGS gerði síðan ráð fyrir því að það yrði 3% hagvöxtur á árinu 2011. Núna gera spár ráð fyrir því að hann verði 1,9%. Raunar eru það bjartsýnustu spár sem gera ráð fyrir því. Það eru til spár Evrópusambandsins og OECD sem fara neðar og jafnvel niður fyrir 1%. Verði raunin sú að við verðum neikvæðari en þetta er það gríðarlegt áhyggjuefni. Þetta er raunverulegt áhyggjuefni og við verðum að spyrja okkur að því hvort við séum að festast í neikvæðum vítahring. Ég held að það sé raunverulega eitthvað sem við verðum að spyrja okkur að. Það er ekki gagnrýni á einn eða neinn heldur tala tölurnar og staðreyndirnar sínu máli.

Í ljósi þess get ég tekið undir margt af því sem kom fram í máli hv. þm. Lilju Mósesdóttur og snýr að samdrætti í hagkerfinu. Hvaða leiðir höfum við út úr því? Hér hafa verið haldnar margar góðar ræður til að mynda um atvinnumál og auðlindanýtingu, hvernig við getum nýtt auðlindir okkar til þess að byggja upp aukna atvinnu í landinu. Hér hefur líka verið bent á að skattlagningartillögur sem liggja fyrir auki og ýti undir áhyggjur manna að við séum kannski að festast í slíkum vítahring. Okkur ber skylda til þess að líta á þessar skattlagningartillögur og velta þeim upp hvort ekki sé rétt að skoða betur hvort þær hafi neikvæð áhrif. Réttara sagt taka eitthvað út af tillögunum sem hafi neikvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu og fara þá frekar í annað; ég nefni til að mynda skattlagningu séreignarsparnaðarins. Það mætti hugsa sér að halda inni erfðafjárskattinum. Hér voru umræður fyrr í kvöld milli tveggja hagfræðinga og tveggja þingmanna um skattlagningu á útstreymi fjármagns. Þetta eru allt hugmyndir sem ekki mundu hafa neikvæð áhrif á hagvöxt og á vöxt hagkerfisins.

Ég held að við núverandi aðstæður eigum við að velta því alvarlega fyrir okkur, ég er ekki að mæla fyrir breytingartillögum, ég er bara að segja að við eigum að velta því alvarlega fyrir okkur hvort ekki sé rétt, við núverandi aðstæður, að draga úr niðurskurði á einhverjum sviðum og einblína einkum á þætti þar sem verið væri að draga úr uppsögnum. Einkum í mennta- og heilbrigðiskerfinu þar sem ljóst er að niðurskurður mun valda verulegum uppsögnum.

Samhliða þessu yrðum við að setja aukinn kraft í atvinnuuppbyggingu bæði í litlum og meðalstórum fyrirtækjum og einnig að setja af stað einhverjar stærri framkvæmdir og liðka fyrir þeim eins og kostur er. Það er mikið áhyggjuefni ef við náum ekki hagvextinum í gang, það er forsendan fyrir endurreisninni. Það er forsendan fyrir því að þetta gangi allt saman upp, það er forsendan fyrir því að við lendum ekki í þeim vítahring að þurfa að skera áfram niður og þurfa að hækka skatta. Við verðum að komast í þá stöðu að vera með 3–4% hagvöxt.

Þá ætla ég að koma að einstökum þáttum í fjárlagafrumvarpinu. Hér hefur verið töluverð umræða um safnliði. Mín reynsla innan fjárlaganefndar og eins innan undirnefnda er að það fer mikill tími í þessa safnliði. Það er alveg hárrétt. Margir hafa fjallað um að rétt væri að endurskoða kerfið. Ég hef hins vegar verið íhaldssamur á ákveðinn hátt þegar kemur að þessum þætti. Ekki það að ég sé mótfallinn því að endurskoða það hvernig þessum fjármunum er úthlutað. Hins vegar er brýnt að við hugum að því að innan þessara þátta eru mörg mikilvæg verkefni sem ekki eiga heima innan menningarsamninganna. Ég nefni til að mynda lítil söfn og setur í kringum landið. Það er enginn formlegur farvegur fyrir þetta núna. Ég hef líka nefnt það að við verðum að vara okkur á því að skera þetta niður án þess að vera búin að undirbyggja í hvaða farveg verkefnin eiga að fara.

Þrátt fyrir stutta þingreynslu hef ég orðið var við það að til mynda á síðasta ári fóru sum safnanna sem voru inni á safnliðunum á samning hjá menntamálaráðuneytinu eins og Þórbergssetur. Hvernig sjáum við fyrir okkur að þessu sé háttað? Hvernig er með söfn eða þætti sem hugsanlega ná samningi en við ætlum að kasta út af safnliðum? Það þarf að skoða þetta allt heildstætt. Endurskoða þetta allt og tryggja í það fjármagn sem við teljum eðlilegt.

Síðan hafa ráðherrarnir verið að forgangsraða fjármunum í einstaka liði og þeir setja mismikið í þessa SA púllíu. Innan menntamálanefndar eru mörg verkefni að falla út núna sem ég held að raunverulega sé ekki pólitískur vilji að falli út. Ég nefni Þjóðfræðistofu á Hólmavík og Melrakkasetur í Súðavík. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða milli umræðna hvort þurfi að bæta eitthvað þarna eða breyta. Það er krafa margra sem hafa fjallað um þessi mál að þessi sambærilegu setur njóti sambærilegs niðurskurðar og eitthvað sem er til að mynda á föstum liðum.

Þá að málinu sem hefur verið mest til umfjöllunar, fengið mesta umfjöllun í fjölmiðlum og mestar deilur hafa staðið um. Það er niðurskurðurinn í heilbrigðismálunum og tillögurnar sem birtust okkur í fjárlagafrumvarpinu. Tillögurnar voru algjörlega úr korti við raunveruleikann, það gefur augaleið. Um leið og þær komu fram var ljóst að þær yrði að endurskoða. Ég lýsti furðu minni á því að tillögurnar kæmu fram með þessum hætti. Ég get tekið undir með hv. þingmönnum sem hafa talað í dag, í það minnsta hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sem hafa talað í dag og sagt að þeir hafi ekki verið búnir að sjá þessar tillögur. Ég var ekki búinn að sjá tillögurnar þegar þær birtust í fjárlagafrumvarpinu. Þær slógu mig um leið og ég sá þær. Þetta var það fyrsta sem rætt var innan okkar raða, alls staðar sem ég kom. Þetta væri ekkert leyndarmál. Þetta yrði að endurskoða. Þetta væri algjörlega út úr kortinu. Hér væri um hreina og klára stefnubreytingu að ræða. Slíkt skyldi ekki verða kynnt í fjárlagafrumvarpi.

Samráði við stofnanir var líka ábótavant. Við höfum orðið þess áskynja í umfjöllun nefndarinnar. Ég nefni til að mynda ákveðnar stofnanir sem komu inn og sögðu okkur að tæpum tveimur sólarhringum áður en frumvarp leit dagsins ljós fengu þau tilkynningu um að það ætti að skera niður á stofnuninni um 20, 30, 40%, sem þýddi tugi uppsagna. Í litlu samfélagi eins og til að mynda Húsavík hefði það þýtt 60 til 70 uppsagnir. Þetta eru ekki vinnubrögðin sem eiga að vera viðhöfð í málum sem þessum.

Þessir sömu aðilar sem komu fyrir nefndina sögðu: Við komum á miðvikudegi suður til Reykjavíkur. Við flugum um kvöldið og náðum að halda starfsmannafund áður en þetta var komið í fjölmiðla. Þessi vinnubrögð eru ekki sæmandi. Nóg um það.

Síðan fer í gang ákveðið ferli innan heilbrigðisráðuneytisins. Heilbrigðisráðherra boðar að hann ætli að endurskoða þessar tillögur. Stofnanir koma hver á fætur annarri fyrir fjárlaganefnd og raunar lítið hægt að fjalla um þessi mál því að það lá ljóst fyrir að það væru nýjar tillögur á leiðinni. Tillögurnar litu síðan dagsins ljós og þar er niðurskurðurinn skorinn allhressilega niður þó er um allverulegan niðurskurð að ræða í mörgum tilfellum. Tillögurnar komu inn ekki svo löngu áður en umræðan hófst. Ég fylgdist vel með því hvort einstakar stofnanir voru búnar að gera úttekt á því hvað þetta mundi þýða í þjónustuskerðingum og uppsögnum. Ég hef fengið það í hendur eftir að þessar tillögur voru birtar. Það liggur ljóst fyrir að við erum komin með tillögurnar inn og við verðum að skoða þær. Við verðum að skoða hvað þær þýða í þjónustuskerðingu og hvað þær þýða í uppsögnum í heilbrigðiskerfinu.

Ég var til að mynda að fá upplýsingar um það núna síðustu daga, eftir að ég hafði grennslast fyrir um það hvort að á Sauðárkróki væri farið að skoða hvað þessi 12% niðurskurður mundi í rauninni þýða í þjónustuskerðingu og fækkun starfa. Menn eru að vinna áætlanir um það hvernig þessu verði mætt. Þar er fjallað um að það geti þýtt til að mynda í ljósmæðraþjónustu að fækka þurfi úr einu og hálfu stöðugildi niður í eitt. Það mundi þýða að það ekki lengur unnt að sinna mæðravernd á Blönduósi frá Sauðárkróki. Allur sónar á þessu svæði fyrir ófrískar konur mundi flytjast til Akureyrar eða Reykjavíkur. Sérfræðikomur mundu algjörlega leggjast af, endurhæfing yrði minni og það yrði að loka endurhæfingaraðstöðu sem væri á staðnum. Þetta eru dæmi um nokkrar aðgerðir. Við verðum að skoða hvað þessi niðurskurður hefur raunverulega í för með sér þjónustulega séð. Þetta á sjálfsagt allt eftir að koma fram í vinnslu fjárlaganefndar milli umræðna.

Þegar kemur að störfum áætla þeir að þetta muni þýða uppsagnir á tólf starfsmönnum, það eru fyrstu viðbrögð. Mönnum finnst það kannski ekki mikið en í litlu samfélagi eins og Sauðárkróki skiptir hvert starf miklu máli. Ef við berum þetta saman við höfuðborgarsvæðið er þetta eins og þúsund manna vinnustað væri lokað með einni aðgerð. Ég hygg að þetta muni hafa einhver sambærileg áhrif á Húsavík en þó var bætt við hjúkrunarrýmum þannig að það kann að vega eitthvað upp.

Það er nefnilega svo að það hefur verið fjallað um þessi mál töluvert í mínum flokki og m.a. á flokksráðsfundi sem haldinn var 19.–20. nóvember 2010. Það var ljóst á þeim fundi að þó að fjölmiðlar fjölluðu um að fundurinn hefði nær eingöngu fjallað um Evrópusambandsumsókn var ljóst að heilbrigðismálin brunnu á fólki, ekki bara íbúum landsbyggðarinnar heldur líka fólki á höfuðborgarsvæðinu, þetta snýr einnig að Landspítalanum.

Mig langar, með leyfi frú forseta, að lesa hér úr þessari ályktun. Þar segir:

„Flokksráðsfundur beinir því til ráðherra og þingmanna að endurskoða þann niðurskurð sem boðaður er innan heilbrigðisþjónustunnar.“ — Og þetta er vissulega áður en þessar tillögur birtust. — „Þol sumra stofnana er nú þegar komið að endamörkum. Ljóst er að sumar stofnanir, þar á meðal Landspítalinn, stærsta heilbrigðisstofnun landsins, þola ekki niðurskurð umfram þann sem þegar hefur orðið án þess að alvarlega sé vegið að þjónustunni. Sýna þarf fram á að þær heilbrigðisstofnanir sem á annað borð þurfa að sæta niðurskurði séu færar um það án skerðingar þjónustu og uppsagna starfsfólks með tilheyrandi afleiddum kostnaði.“

Það er alveg skýrt að þarna eru lagðar skýrar línur. Ég hef fundið það í umræðunni í dag að menn eru sammála um það að varðandi forgangsröðun í ríkisfjármálum er þetta ein af grunnstoðum sem mikilvægast er að verja. Því er við það að bæta að mörg lönd glíma við sambærilegan vanda og við glímum við núna. Því er kannski við það að bæta að í Bretlandi til að mynda er breski íhaldsflokkurinn að vinna að róttækustu niðurskurðartillögum allra tíma í Bretlandi. Þar er búið að taka ákvörðun um að hlífa heilbrigðiskerfinu. Þeir ætla að afnema verðtrygginguna en þeir ráðast ekki inn í grunnframlögin því að þetta er viðkvæmur málaflokkur. Hann er líka dýr og ef menn kostnaðartengja það meira mun það koma niður á notendum þjónustunnar. Þetta held ég að sé það sem menn þurfa að sammælast um að verja.

Í þessari umræðu hafa stærri stofnanir eins og Landspítalinn og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri gleymst. Í umfjöllun fjárlaganefndar kom til að mynda skýrt fram að allur niðurskurður á Húsavík og Sauðárkróki mundi þýða að sjúkrahúsið á Akureyri þyrfti að fá aukna fjárveitingu. Ef niðurskurðurinn hefði gengið eftir, eins og hann var lagður upp í upphafi, á Húsavík og Sauðárkróki gerðu þeir ráð fyrir að þurfa á milli 300 og 400 milljónir inn á Akureyri til þess að sinna því. Það er ljóst að jafnvel þó að það hafi verið skorið úr því mun það líka þýða eitthvað fyrir sjúkrahúsið þar. Ég held að eftir það sem ég hef kynnt mér á Landspítalanum séum við nánast komin inn að beini. Mikilvægt er að kafa vel í það og ég held að þetta sé eitthvað sem menn ættu að sammælast um að sé ein af mikilvægu grunnstoðum sem við ættum að reyna að verja.

Ég kom áðan inn á þann fjölda fólks sem er á leiðinni að missa vinnuna á Sauðárkróki. Auðvitað hefur niðurskurður í för með sér uppsagnir og annað því um líkt. Það er ljóst að í mörgum hinum dreifðu byggðum landsins er verið að skera niður, ekki bara í heilbrigðiskerfinu. Það er verið að skera niður í menntakerfinu, í löggæslunni og velferðarþjónustunni. Það er verið að skera niður á mörgum stöðum og í mörgum undirstofnunum ráðuneyta. Þá er alveg ljóst að það er ekki samhæfð úttekt á því hvað þetta mun þýða fyrir einstök byggðarlög. Við getum til að mynda staðið frammi fyrir orðnum hlut hér í febrúar, þetta hefur aldrei verið gert, held ég, að það sé svona samhæft eftirlit með þessu. Við getum staðið frammi fyrir því í janúar að lítið samfélag eins og Blönduós eða Dalvík eða hvað það er missir fjölda opinberra starfa. Ég minni á að tólf störf á Sauðárkróki eru samsvarandi þúsund manna vinnustað á höfuðborgarsvæðinu. Þessi litlu samfélög sem hafa búið við neikvæðan hagvöxt, í því samhengi nefni ég Norðurland vestra þar sem hagvöxturinn varð neikvæður um 5% á árunum 2003 til 2008. Á þessu tímabili rauk hér allt upp í hagvexti.

Þessi byggðarlegu sjónarmið eru viðkvæm. Ég held að við verðum að skoða þetta með gleraugum rétt eins og að skoða hlutina með kynjagleraugum. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að þetta sé eitthvað sem þurfi að skoða betur milli umræðna. Ég hef áhyggjur af því að afleiðingar fjárlagafrumvarpsins kunni að koma illa niður á ákveðnum byggðarlögum án þess að maður hafi upplýsingar um það eins og sakir standa. Það er erfitt að henda reiður á því.

Síðan að þætti sem hefur verið í umræðunni af því að menn tala um að það verði að skera einhvers staðar niður en þá er til fjármagn. Það eru verkefni sem að mínu viti eru ekki forgangsverkefni við núverandi aðstæður og það ætti að forgangsraða í þágu grunnstoðanna en leggja til hliðar umdeild verkefni eins og rándýra aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þá segja menn: Það er hvergi gert ráð fyrir neinum fjármunum í þessa ESB-umsókn. Þetta hefur verið sagt í mín eyru þegar ég hef bent á þetta í umræðum í fjárlaganefnd, frá utanríkisráðuneytinu og víðar. En þetta er falið hér og þar í frumvarpinu. Það er hvergi neinn liður sem heitir Aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og erfitt að benda á það hve miklir fjármunir fara í þetta. Við vitum að í síðustu viku var 15–20 manna sendinefnd á vegum sjávarútvegsráðuneytisins í Brussel í heila viku eða tvær vikur, eða hvað það nú var. Einhver slær á að það séu um 200 manns að vinna í þessari umsókn eins og sakir standa og eitthvað kostar þetta.

Síðan koma inn verkefni sem er búið að setja í fallegan búning. Hv. þm. Ragnheiður Elín benti á eitt þeirra. Mig langar að koma inn á annað hérna sem er (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmann á að nefna þingmenn með fullu nafni.)

Ég biðst afsökunar, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir kom inn á eitt verkefni áðan og mig langar að koma inn á annað sem ég held að sé skilgetið afkvæmi þessarar Evrópusambandsumsókn. Það er svokölluð Sóknaráætlun 20/20 sem virðist að einhverju leyti tvinnast inn í byggðaáætlun. Þegar hún var til umfjöllunar í mínum þingflokki var lítið orðið í henni nema það tengdist Evrópusambandsumsókn. Sóknaráætlun 20/20 ber einnig nafn sitt af sambærilegri áætlun hjá Evrópusambandinu og er samþættingaráætlun sem liður í þessari Evrópusambandsumsókn og þeirri vinnu.

Það er til að mynda dálítið furðulegt í breytingartillögum sem komu við fjárlagafrumvarpið í fyrra. Þá voru settar 25 milljónir í sóknaráætlunina, það var breytingartillaga sem kom frá forsætisráðuneytinu í gegnum ríkisstjórnina. Nú er gert ráð fyrir 10 milljónum sem koma inn í þetta í breytingartillögu. Í rauninni hefur þessi sóknaráætlun ekki verið lögð fram. Það var lögð fram lítil þingsályktunartillaga í fyrra. Það var mælt fyrir henni hérna, hún fór til allsherjarnefndar en hún hefur ekki verið samþykkt enn þá. Mér er ekki kunnugt um að búið sé að leggja fram aðra sóknaráætlun þó að ég hafi fregnir af því að slík áætlun sé hjá ríkisstjórninni. Þetta er einn af þeim liðum þar sem klárlega er verið að sækja fjármagn til verkefna sem tengjast óbeint inn í Evrópusambandsumsóknina.

Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir Alþingi að kostnaðurinn sem er í Evrópusambandsumsókninni, þetta var rætt á fundi fjárlaganefndar þegar utanríkisráðuneytið kom, sé settur þannig upp að hægt sé að henda reiður á því hvað þetta kostar. Það er ekki hægt í dag og utanríkisráðuneytið heldur ekki utan um þetta með nokkrum hætti. Einstök ráðuneyti held ég að haldi lítið utan um þetta en það er ljóst að það fara í þetta hundruð milljóna. Ég hef sagt að slíkt sé ekki forsvaranlegt við þær aðstæður sem við búum við núna. Ég er búinn að fara yfir niðurskurð í heilbrigðismálum og það er hægt að fara yfir menntamálin og einstaka þætti en tíminn gefur ekki rúm til þess að fara djúpt í alla þætti frumvarpsins. En við aðstæðurnar sem við búum við núna er gríðarlega mikilvægt að forgangsraða í þessa veruna.

Mig langar svo hér, af því að ég ætla ekki að hafa mál mitt mikið lengra, að koma inn á það sem ég ræddi áðan sem eru áhyggjurnar af hagvaxtarhorfunum og hversu mikilvægt það er að koma af stað aukinni atvinnuuppbyggingu og taka alvarlega þessar tölur sem birtast okkur í hagvaxtarspám. Taka alvarlega þessar tölur og vísbendingar sem birtast okkur í því að hagkerfið sé ekki á þeirri siglingu sem það þarf að vera og við verðum einfaldlega að fara. Það má ekki fara of harkalega í skattana miðað við aðstæðurnar sem eru núna. Ég hef áhyggjur af því að við séum að komast í það ferli að naga skottið á okkur og þá getur reynst erfitt að komast út úr því. Það er einmitt þetta sem margir hafa varað við ef efnahagsáætluninni sé fylgt í allt of mikilli blindni, áætlunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að menn lendi einmitt í þessu ferli að þeir fari að naga skottið á sér og þurfi alltaf að þrengja beltið um eitt gat á hverju einasta ári.

Við þurfum að ná höndum saman um að fara ofan í þessi mál. Grundvöllurinn sem mun knýja þetta áfram til þess að ná á flug á nýjan leik verður auðvitað hagvöxtur. Við þurfum að ná hagvextinum upp og hann má ekki dragast meira saman og niðurskurðartillögurnar, sé gengið inn í þær, og skattahækkunartillögurnar. Ég hef áhyggjur af því að þessar tvær tillögur muni valda því að hagkerfið skreppi saman.