139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[03:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það fjárlagafrumvarp sem við ræðum núna og erum að ljúka umræðu um í 2. umr. getum við kallað munaðarlausa fjárlagafrumvarpið. Þegar það var lagt fram hafði varla liðið dagurinn þegar fóru að koma fram upplýsingar um að einstakir stjórnarliðar styddu ekki veigamestu stefnumörkunarþættina í frumvarpinu. Mjög fljótlega kom fram, það var ekki liðin vika frá því að það var lagt fram á Alþingi 1. október sl. þegar ljóst var að minni hluti Alþingis studdi veigamestu stefnumörkunina í fjárlagafrumvarpinu sem sneri að heilbrigðismálum og sérstaklega heilbrigðismálum á landsbyggðinni. Þetta vekur með manni margar spurningar. Það var athyglisvert að þegar þetta frumvarp var lagt fram með metnaðarfullum hætti af hálfu hæstv. fjármálaráðherra, sem lýsti því yfir að þetta væri stóri hjallinn sem ætti að skríða yfir og eftir það yrði allt blúndulagt fram undan meira og minna, kom í ljós að ekki var stuðningur við þetta mikla móverk sem ríkisstjórnin hafði kastað frá sér inn í þingið þann 1. október. Auðvitað vakna með manni spurningar um hvernig staðið er að slíkum málum þegar sú staða er uppi að einungis allra hraustustu mennirnir í stjórnarliðinu treystu sér til þess að fylgja eftir sjálfu fjárlagafrumvarpinu og koma því áfram í gegnum þingið. Hvernig í ósköpunum var staðið að kynningu á þessu máli?

Nú liggur fyrir að fjárlagafrumvarpið var lagt fram með þeim formerkjum að nú væri verið að taka gríðarlega mikið á, menn væru að taka á honum stóra sínum, það væri verið að taka á erfiðum og viðkvæmum útgjaldaþáttum sem þyrfti óhjákvæmilega að takast á við.

Í kjördæmavikunni þar sem við sátum á fundum, þingmenn Norðvesturkjördæmis, með sveitarstjórnarmönnum alls staðar að úr kjördæminu kom mjög vel fram hjá fulltrúum stjórnarliðanna sem sátu þessa fundi, þingmönnum, að þeir virtust ekki hafa hugmynd um hvað stóð í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram. Getur það verið að hv. þingmenn hafi afgreitt þetta mál frá sér blindandi? Getur það verið að þingmenn stjórnarliðsins hafi ekki haft döngun, metnað, vilja eða getu eða nennu til að spyrja einfaldra spurninga um hvað niðurskurðurinn í heilbrigðismálunum þýddi? Þegar málið var kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna hlýtur að hafa verið gerð grein fyrir því að í þessu fælist einhver stefnumörkun, eða var ekki svo? Var kannski verið að reyna að dulbúa málið? Var verið að reyna að blekkja menn? Var verið að reyna að komast hjá því að segja mönnum sannleikann um það sem stóð í frumvarpinu? Eða var það þannig að þingmenn stjórnarliðsins höfðu ekki haft í sér þá döngun að reyna að spyrjast fyrir um í hverju niðurskurðurinn ætti að felast? Datt engum í hug að það kæmi einhvers staðar við þegar það var boðað að skera ætti niður í heilbrigðismálum með þeim hætti sem rammi heilbrigðisráðuneytisins kvað á um? Ekki trúi ég því að mönnum hafi ekki verið gerð grein fyrir rammanum þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna.

Hins vegar er svo að skilja og það hefur raunar komið fram í umræðunni og m.a. rétt áðan að þingmenn stjórnarflokkanna hafi gengið til þessarar umræðu eins og blindir kettlingar og án þess að hafa hugmynd um hvað stóð í fjárlagafrumvarpinu og voru enda fljótir til að varpa allri ábyrgð af sínum eigin herðum yfir á aðra í þessu sambandi.

Það má kannski segja að miklu veldur sá er upphafinu veldur, því að nú er svo komið við lok þessarar umræðu að fram hefur komið hjá einum fulltrúa stjórnarflokkanna, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, að hún muni ekki styðja fjárlagafrumvarpið að óbreyttu. Hún lýsti því yfir úr þessum ræðustól rétt áðan að hún mundi sitja hjá við atkvæðagreiðslu á morgun. Í hverju felst sú atkvæðagreiðsla? Þar er stefnumörkunin, þar munum við taka afstöðu til breytingartillagna meiri hluta fjárlaganefndar. Við munum taka afstöðu til einstakra liða í fjárlagafrumvarpinu eins og það er lagt fram og það er ekki fyrr en við 3. umr. sem við tökumst á við önnur þau mál sem út af standa og fjárlagafrumvarpið sjálft. En það sem hér er verið að segja er það að einn þingmaður stjórnarliðsins lýsir því yfir að hún styðji ekki lengur sjálft fjárlagafrumvarpið. Þá vaknar spurningin: Hver er afstaða hv. þingmanns til ríkisstjórnarinnar? Er hægt að standa þannig að málum að maður styðji ríkisstjórn en styðji ekki fjárlagafrumvarpið og fjárlögin sem ríkisstjórnin ber á borð og á að vera grundvöllur efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár?

Það sjá auðvitað allir að þetta mál er þannig að það er að kvarnast úr stuðningsliði ríkisstjórnarinnar. Það birtist hér í kvöld og það hefur líka birst á undanförnum vikum í því að einstakir þingmenn stjórnarliðsins eru ekki tilbúnir til að fylgja eftir helstu stefnumörkun fjárlagafrumvarpsins þegar kemur að stærstu málaflokkum eins og í heilbrigðismálum.

Mikið hefur verið talað um að við verðum að stokka upp á nýtt, að hér hafi orðið efnahagslegt hrun haustið 2008. Þetta eru ekki ný sannindi, auðvitað gerðu sér allir grein fyrir þessu strax haustið 2008. Þá var sett af stað efnahagslegt prógramm með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það prógramm fól í sér að árið 2009 yrði okkar erfiðasta ár, þá yrði hrapið í landsframleiðslunni mest, þá yrði tekjuhrap ríkissjóðs mest og því væri skynsamlegast við þær aðstæður, vegna þess að ríkissjóður hefði verið skuldlaus fram undir þetta, vegna þess að ríkissjóður ætti inneign í Seðlabankanum o.s.frv., að fara varlega í aðhaldsaðgerðir á árinu 2009. Þeirri stefnu var fylgt. Sú stefna bar þann árangur að gagnstætt því sem menn áætluðu haustið 2008 varð samdrátturinn í landsframleiðslunni mun minni en áætlað var. Það hefði að öllu jöfnu átt að gefa mönnum færi á því að efnahagslíf okkar mundi rétta fyrr úr kútnum en ella. Það að við horfðum fram á 6–6,5% samdrátt í landsframleiðslu í staðinn fyrir 9–10% eins og ætlað var hefði auðvitað átt að gefa okkur möguleika á að spyrna okkur upp úr þessum vandræðum mun fyrr en ella. En svo hefur ekki verið. Nú eru liðin tvö ár. Nú geta stjórnarliðar ekki endalaust horft í baksýnisspegilinn, þeir verða að horfa framan í sín eigin verk. Það eru verk ríkisstjórnarinnar sem valda því að við erum núna í þeim miklu vandræðum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni, m.a. í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar sem dró það fram hvílíkt áhyggjuefni þróun landsframleiðslunnar og þróun hagvaxtarins væri.

Menn höfðu gert sér vonir um það, jafnvel þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram í byrjun október, að hagvöxturinn á næsta ári yrði 3,2%. Nú er það mat allra að það megi teljast gott ef glittir í einhvern alvöruhagvöxt á næsta ári. Spárnar sem við sjáum þessa dagana um kannski rúmlega 1% hagvöxt eru auðvitað hrollvekjandi í þessu ljósi — hrollvekjandi vegna þess að það hafa verið næg tækifæri á þessum tíma til að snúa þróuninni við. En gáum síðan að einu: Á hverju á þessi hagvöxtur að byggja? Á hann að byggjast á fjárfestingu? Á hann að byggjast á auknum umsvifum atvinnulífsins? Á hann að byggjast á auknum opinberum framkvæmdum? Ekkert af þessu. Að vísu er það svo að menn eru að reyna að hengja hatt sinn á mögulegt samstarf við lífeyrissjóðina um auknar vegaframkvæmdir og þær eru vissulega af hinu góða, en þær munu hins vegar ekki standa undir miklum eða merkilegum hagvexti einar og sér.

Ríkisstjórnin reiðir sig á eitt, hún reiðir sig á það að hér verði tiltölulega kröftug einkaneysla. En hvernig á það að geta komið heim og saman? Hvernig á einkaneysla að geta verið mikil hér eða í blóma eða vaxandi á næsta ári í ljósi þess að heimilin eru ofurskuldsett? Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að bregðast við vanda heimilanna hafa verið dregnar von úr viti eins og allir vita. Það er fyrst núna á síðustu dögum sem við sjáum niðurstöðu af samráði við lífeyrissjóðina, bankana o.s.frv., sem út af fyrir sig er góðra gjalda vert, en öllum er þó alveg ljóst að munu ekki verða þau þáttaskil hvað varðar heimilin í landinu að þau geti staðið undir varanlegri einkaneyslu til einhvers tíma. Menn horfa til þess að það hafi verið örlítill vöxtur í einkaneyslunni eða nokkur vöxtur í einkaneyslunni milli 2. og 3. ársfjórðungs á þessu ári. Það á sér eðlilegar skýringar, m.a. þær að á sumrin verður til einkaneysla í formi aukinna framkvæmda heimilanna, sumarleyfa og slíkra hluta, en sá tími er auðvitað liðinn. En nú eru menn allt í einu farnir í alvöru í spám sínum að hengja hatt sinn á það að kannski verði þetta ekki svo galið á 4. ársfjórðungnum af því að að hafi verið nóvemberútsölur, svo komi jólavertíðin og síðan horfa menn til þess að útsölurnar í janúar muni kannski bjarga ríkisstjórninni í því að það verði einhver vottur af vexti í landsframleiðslu eða hagvexti vegna þess að heimilin muni fara á eyðslufyllirí í janúarútsölunum. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, ríkisstjórnin er farin að þvælast á milli útsalna, rétt eins og kaupóður einstaklingur, í þeirri von að það verði til þess að bjarga hagvextinum í landinu. Ríkisstjórnin er sem sagt farin að byggja efnahagsstefnu sína og hagvöxt á útsölum. Hagvaxtarstefna ríkisstjórnarinnar er þannig í óeiginlegri merkingu orðin að einhvers konar útsölugóssi.

Það sem við þurfum að gera er að brjótast út úr þeim mikla vítahring sem við erum í, rétt eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði áðan: Við erum í vítahring, við komumst ekkert áfram. Það er þess vegna vonlaus stefna sem ríkisstjórnin fylgir, að reyna stöðugt að skrúfa sig niður með samdrættinum, með því að auka skattheimtu til að reyna að búa til tekjur fyrir ríkissjóðs og herða síðan aftur á niðurskurðinum til þess að reyna að láta endana ná saman. Það er út af fyrir sig nauðsynlegt að draga saman seglin. Ég hef aldrei útilokað það eða talið hægt að útiloka það að ríkið þyrfti einhvers staðar að afla sér aukins fjármagns með aukinni skattheimtu tímabundið við þessar aðstæður, en þar verða menn hins vegar að fara mjög varlega.

Kjarni málsins er sá og stóra málið er það að við reynum að koma fótunum undir atvinnulífið, reynum að skapa hér einhverjar aðstæður sem gera það að verkum að atvinnulífið fari að fjárfesta. Það er ekki að gerast núna, það er það alvarlega í málinu. Ríkisstjórnin hefur hengslast við að reyna að bregðast við þeim vanda sem uppi er í atvinnulífinu. Sagt er að 6–8 þús. fyrirtæki séu í vanda gagnvart bankakerfinu og sú er staðan jafnvel tveimur árum eftir hrunið. Þetta er auðvitað gjörsamlega útilokað og mjög ámælisvert af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Á sama tíma eru menn að bregðast við með niðurskurðaráformum, sem a.m.k. á suman hátt geta verið eðlileg við þessar aðstæður þar sem við erum að reyna að hagræða og spara og gera hlutina eins vel og hægt er, en annars staðar eru málin hins vegar skilin eftir í fullkomnu uppnámi.

Ég ætla að taka dæmi af sjúkrahúsinu á Sauðárkróki. Að vísu er það svo að það var dregið úr þeirri hagræðingar- eða sparnaðarkröfu sem uppi var varðandi sjúkrahúsið á Sauðárkróki en það er engu að síður skilið eftir með 12% niðurskurð. Þar er gert ráð fyrir því að sjúkrarýmin á sjúkrahúsinu verði einungis sjö á næsta ári þó að fyrir liggi, og ég held að það sé óumdeilt, að samkvæmt reiknireglunum ætti sjúkrarúmafjöldinn á Sauðárkróki ekki að vera sjö heldur níu. Ég hvet hv. þingmenn í fjárlaganefnd til að skoða sérstaklega þessa stofnun í því ljósi og athuga hvort ekki sé hægt að ná um það pólitísku samkomulagi að draga úr þessum niðurskurði sem er svo heiftarlegur á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki. Fyrir nú utan það að boðað er í niðurstöðu og kynningum hæstv. heilbrigðisráðherra að áfram skuli haldið a.m.k. af sama afli við niðurskurð á sjúkrahúsinu þar á árinu 2012 og þá er auðvitað ljóst að það er eingöngu verið að fresta boðuðum niðurskurði um eitt ár frá því sem ætlað var þegar ríkisstjórnin lagði fram fjárlagafrumvarp sitt.

Að mínu mati er það lágmarkskrafa sem hægt er að gera til meiri hluta fjárlaganefndar við þessar aðstæður að meiri hlutinn bregðist við með eðlilegum hætti þegar það er augljóst að þarna er um að ræða reikningsskekkju í útreikningum varðandi sjúkrahúsið á Sauðárkróki og viðurkenni þau mistök og taki til við það að leiðrétta stöðu sjúkrahússins.

Í annan stað langar mig að koma inn á gjörólíkt mál og ræða stofnun sem oft er skotspónn, m.a. í þessum ræðustól og ég tala nú ekki um í almennri umræðu. Hér á ég við Byggðastofnun. Í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er gert ráð fyrir að eigið fé Byggðastofnunar verði aukið um einn milljarð að fenginni úttekt iðnaðarráðuneytisins á framtíðarfyrirkomulagi á lánastarfsemi stofnunarinnar. Þetta er að vísu mjög óljóst í hverju það framtíðarfyrirkomulag á að felast. Hvenær verður þeirri endurskoðun lokið? Hvenær ætla menn að klára málin þannig að Byggðastofnun geti fengið aukið eigið fé?

Gáum nú aðeins að forsögunni. Forsagan er sú að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók um það ákvörðun, sennilega með lögbroti, að afnema aflamark í rækju. Þetta gerði hann að Byggðastofnun forspurðri og Byggðastofnun er sú stofnun, fjármálastofnun í landinu sem hefur mestra hagsmuna að gæta þegar kemur að rækjuiðnaðinum. Byggðastofnun hefur staðið mjög vel við bakið á rækjuiðnaðinum í þeim hremmingum og vandræðum sem hann hefur verið í á undanförnum árum. Byggðastofnun hefur komið til skjalanna þegar bankarnir treystu sér ekki til þess að standa við bakið á þessari mikilvægu útflutningsgrein okkar sem þar að auki gegnir gríðarlega miklu hlutverki, m.a. á þeim landsvæðum sem hafa búið við neikvæðan hagvöxt undanfarin ár. Byggðastofnun tók auðvitað eðlileg veð. Veðin voru skip, tæki og veiðiréttur, rétt eins og gert er í sjávarútvegi í öllum lánastofnunum landsins og ekkert ólöglegt við það, ekkert óeðlilegt við það.

Hæstv. ráðherra tók hins vegar ákvörðun um að afnema aflamarkið. Hvað þýddi það? Hvað hafði það í för með sér? Jú, það setti stofnunina í algjört uppnám. Og þessi stofnun sem hafði fengið stuðning ríkisvaldsins árið á undan var skyndilega komin í þá stöðu að eigið fé og eiginfjárhlutfall stofnunarinnar var komið niður fyrir lögbundið lágmark. Það sem nú ætti að gera tafarlaust er að hæstv. ráðherra afturkalli þessa ákvörðun sína og þá mundi staða Byggðastofnunar gjörbreytast á einum degi. Nei, það er ekki gert. Þess í stað heldur hæstv. ráðherra fast við sinn keip, heldur áfram og móast við þrátt fyrir að fyrir liggi lögfræðiálit sem segja að hæstv. ráðherra fari hér gegn lögum. Og hann gerir það þrátt fyrir það að þessi lagaálit liggi fyrir, enda er búið að stefna honum fyrir dómstóla núna. En þess í stað bregður meiri hluti hv. fjárlaganefndar á það ráð að senda reikninginn fyrir þessu óðagoti og meintu lögbroti hæstv. ráðherra til skattborgaranna í landinu. Skattborgurunum í landinu er sendur 1.000 millj. kr. reikningur fyrir flumbruganginn í hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta er auðvitað reginhneyksli frá upphafi til enda.

Byggðastofnun hefur legið undir ámæli og menn hafa sagt: Byggðastofnun hefur hegðað sér óskynsamlega. Hún hefur verið að lána þannig að hún hefur tapað á útlánum sínum. En gáum nú að. Hér liggur fyrir svar við fyrirspurn hv. þm. Ásbjarnar Óttarssonar um afskriftir lána í viðskiptabönkunum. Þar kemur fram að nýju bankarnir hafi keypt fyrirtækjalánin af þeim gömlu að meðaltali á um 40% af kröfuvirði við yfirfærslu. Það þýðir að bankakerfið í landinu hefur afskrifað heilt yfir 60% af útlánum sínum til fyrirtækjanna í landinu. Síðan setja menn sig á háan hest gagnvart einni lítilli stofnun sem hefur sérstaklega sinnt þeim landsvæðum sem eiga helst undir högg að sækja og þar sem maður gæti ímyndað sér að útlánaáhættan væri mest, stofnun kom til skjalanna þegar bankarnir, þessir fínu bankar, treystu sér ekki til að lána fyrirtækjunum á landsbyggðinni, þá kom Byggðastofnun til skjalanna og bjargaði málum. En Byggðastofnun er hins vegar ekki að verða fyrir sambærilegum útlánatöpum og bankarnir, 60% útlánatöp vegna fyrirtækjanna í landinu á meðan Byggðastofnun horfir fram á að ég hygg „ekki nema“ 20% útlánatöp. Ég held að menn ættu því að fara varlega í að sparka sífellt í Byggðastofnun þegar við höfum þennan samanburð beint fyrir framan okkur í þessum efnum.

Til viðbótar þessu kemur mjög skýrt fram stefnumörkun hæstv. ríkisstjórnar gagnvart þessari stofnun, þessari veigamiklu þjónustustofnun landsbyggðarinnar því að á sama tíma og hæstv. iðnaðarráðherra er gert að spara á milli 9 og 10% í sínu ráðuneyti bregður hæstv. ráðherra á það ráð að skerða fjárframlög til stofnunarinnar um meira en 20%, 21–22% er niðurskurðurinn á Byggðastofnun. Það sýnir auðvitað í verki hug stjórnarmeirihlutans eins og hann leggur sig til þessarar stofnunar, þessarar mikilvægu byggðastofnunar sem þjónar svo mikilvægu hlutverki fyrir landsbyggðina. Og á sama tíma og sjávarútvegsráðherra mokar út af eigin fé hér um bil 1.000 millj. kr. bregður hæstv. iðnaðarráðherra á það ráð að skerða fjárframlögin til stofnunarinnar um meira en fimmtung og það er augljóst mál af þeim breytingartillögum sem liggja fyrir að meiri hluti fjárlaganefndar ætlar að blessa það og klappa fyrir því hér á morgun.

Þriðja málið sem ég ætla að nefna er húshitunarkostnaðurinn. Húshitunarkostnaðurinn hefur verið að þróast mjög ískyggilega undanfarin ár. — Nú vildi ég biðja hv. formann fjárlaganefndar að vera viðstaddan, ég þarf að beina til hv. formanns einnar spurningar á eftir. Er ekki hægt að gera ráðstafanir til þess að hv. formaður fjárlaganefndar eða varaformaður, sem ég hygg að séu bæði í húsinu, hlýði á mál mitt til að geta þá brugðist við spurningu sem mig langar til að leggja fyrir hv. þingmenn og fá svarað hér í lok umræðunnar?

(Forseti (ÁRJ): Forseti sér að báðir þeir þingmenn sem hv. þingmaður óskar eftir að fá hingað eru í húsinu. Ég geri ráð fyrir að þau séu að fylgjast með umræðunni hér úr salnum.)

Ég þakka kærlega fyrir það. Og ég vil þakka þeim báðum fyrir, ég veit að þau hafa fylgst með þessari umræðu í dag og staðið sig vel í því.

Ég vildi eingöngu, af því að ég er að fjalla aðeins um húshitunarkostnað, vekja athygli á því að húshitunarkostnaður hefur verið að þróast á neikvæðan og alvarlegan hátt undanfarin ár. Þannig er að húshitunarkostnaður í dreifbýli, bæði á Rarik-svæðum og Orkubús-svæðum, sérstaklega á Rarik-svæðum, hefur hækkað á milli 60 og 70%. Það er auðvitað skuggaleg tala. Þeim mun ískyggilegra er síðan að lesa um það í fjárlagafrumvarpinu að gert er sérstakt átak í því að skera niðurgreiðslur til húshitunar meira en sem svarar hagræðingarkröfunni sem gerð er á iðnaðarráðuneytið. En þetta er ekki allt. Til viðbótar við þetta — það er eins og ekki sé nóg að gert — hefur hæstv. fjármálaráðherra lagt fram frumvarp um breyting á lögum um virðisaukaskatt sem felur það í sér að fallið er frá því að nýta virðisaukaskattsgreiðslur sem innheimtar eru af húshitunarkostnaði til að lækka húshitunarkostnaðinn á landsbyggðinni. Í gildi hafa verið tilteknar endurgreiðslureglur sem hafa haft það í för með sér að þrátt fyrir að verið sé að greiða 7,5% virðisaukaskatt af húshitunarkostnaði hefur þessari upphæð, sem eru hér um bil 220 millj. kr., 217 millj. kr. svo ég sé nákvæmur, verið varið að hluta til og að mestu leyti til þess að greiða til baka á þeim svæðum þar sem húshitunarkostnaður er hvað mestur.

Nú er sem sagt búið að leggja fram fjárlagafrumvarp sem felur það í sér að horfið verður frá þessu. Þetta er alveg klár stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar, að hverfa frá þessu, nema hvað? Hæstv. fjármálaráðherra greindi frá því í þessari umræðu að ekki væri ætlunin að þetta yrði sjálfstæð tekjuöflun fyrir ríkissjóð heldur væri ætlunin, ef þetta næði fram, að tryggja það í fjárlagafrumvarpinu að varið yrði sambærilegri upphæð til þess að auka niðurgreiðsluna til húshitunarkostnaðar. Ég er ekki endilega sammála því að þetta sé góð aðferð. Í því er auðvitað falin viss trygging að virðisaukaskattinn sé endurgreiddur með svipuðum hætti og gert hefur verið. En verði þetta hins vegar hin pólitíska niðurstaða hljótum við að kalla eftir því að í fjárlagafrumvarpinu fyrir 3. umr. komi samsvarandi upphæð, um 220 millj. kr., til þess að greiða niður húshitunarkostnaðinn til viðbótar við það sem er gert. Það er ljóst mál, miðað við þær upphæðir sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir varðandi húshitunarkostnaðinn, að húshitunarkostnaður á þessum svæðum mun enn hækka á næsta ári, enn mun draga í sundur milli höfuðborgarsvæðisins og dreifbýlisins sem býr við rafhitun að óbreyttu vegna þess að niðurgreiðslurnar munu lækka. En þó kastar fyrst tólfunum ef það verður gert þannig að virðisaukaskattsgreiðslurnar renni ekki lengur til lækkunar á húshitunarkostnaði og ekki verður aukið í þessa púllíu eins og hæstv. fjármálaráðherra gaf okkur ádrátt um í umræðunni á sínum tíma.

Ef ekkert verður að gert mun þetta þýða viðbótarkostnað við húshitun á hinum köldu svæðum sem svo eru kölluð upp á 4,5%. Og gáum þá að því að þeir sem borga hvað mest í dreifbýlinu borga 200–300 þúsund, kannski 400 þúsund í ýmsum tilvikum fyrir húshitun, og 4,5% viðbótarkostnaður er bara heilmikið fyrir fólk með skertar tekjur og kannski lág laun eins og víða gerist í sveitum landsins. Þess vegna spyr ég hv. formann fjárlaganefndar: Hefur það ekki verið rætt í fjárlaganefnd eða við fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna að bregðast þannig við að fjármagn til húshitunarkostnaðar verði aukið með þeim hætti sem ég er hér að tala um, verði það niðurstaðan að hætta endurgreiðslum vegna virðisaukaskattsins?

Síðasta málið sem ég ætla að fjalla um eru spurningar sem hafa vaknað um það og sú umræða sem hefur snúist um það hvort verið sé að verja velferðarkerfið í þessu fjárlagafrumvarpi. Málinu er einhvern veginn stillt þannig upp — ég tók eftir því t.d. að fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, hv. 6. þm. Norðausturkjördæmis, talaði eins og að um þetta mál væri einhver pólitískur ágreiningur, það væri mikill ágreiningur milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sagði þessi hv. þingmaður, um velferðarkerfið, að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ganga hart fram í því að skerða velferðarkerfið. Þetta er tóm vitleysa. Ef við skoðum bara tölurnar á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn sjáum við að tölurnar hafa einmitt þróast í þá áttina að framlög til velferðarmála hafa stórum aukist og svo mjög að við höfum stundum verið skömmuð fyrir að hafa ekki sýnt nægilega mikið aðhald í ríkisrekstrinum á þessum árum, menn hafi látið þar vaða á súðum og aukið framlögin m.a. til velferðarmála. Þetta er því tóm vitleysa sem haldið er fram.

Það sem menn hafa verið að gera jafnframt því að auka fjármuni til velferðarkerfisins og reyna að tryggja og treysta forsendur velferðarkerfisins, er að byggja upp velferðarkerfi í óeiginlegum skilningi út um allt landið. Við sjáum að það hafa orðið gríðarlegar breytingar í atvinnumálum landsbyggðarinnar. Menn hafa orðið að bregðast við með því að breyta til. Menn hafa orðið að horfast í augu við það að frumframleiðslugreinarnar, eins og sjávarútvegur og landbúnaður og iðnaður eftir atvikum, hafa verið að tæknivæðast. Þar hefur mannaflsþörfin orðið minni o.s.frv. Það hefur auðvitað haft byggðaleg áhrif vegna þess að hlutur mannafla úr þessum atvinnugreinum er svo stór í atvinnulífi landsbyggðarinnar. Þetta hafa menn verið að reyna að gera með markvisst og með ýmsum hætti, t.d. með því að treysta innviði þessara samfélaga, með auknum samgöngubótum, með því að skapa einhvern stöðugleika í kringum þessar atvinnugreinar, eins og sjávarútveginn, þó að núverandi ríkisstjórn sé búin að hleypa því öllu saman í uppnám, og ekki síst með markvissri uppbyggingu opinberrar þjónustu á heilbrigðissviði, menntasviði og á rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Þetta hefur borið gríðarlega mikinn árangur. Og ég ætla að fullyrða eitt, til að mynda um norðanverða Vestfirði: Ef sjávarútveginn fær að vera í friði í ljósi þeirrar uppbyggingar sem við höfum séð í samgöngumálum og ef menn láta í friði þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað í innviðum eins og heilbrigðismálum, menntamálum, rannsóknarmálum o.s.frv., ef þetta fær að vera í friði hygg ég að landsvæði eins og norðanverðir Vestfirðir fari brátt að verða nokkuð sjálfbærir í þeim skilningi að þeir geta farið að toga til sín störf og verkefni með eðlilegum hætti í samkeppni við aðra. Þar er af mörgu að taka.

Eitt af því sem við höfum gert mjög markvisst á norðanverðum Vestfjörðum er að byggja upp menntastarfsemi, háskólastarfsemi. Um þetta var tekist á meðal okkar á sínum tíma. Og það voru ekki síst fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem gagnrýndu harðlega að þetta væri ekki nægilega metnaðarfullt. Þeir gerðu kröfu um að þegar í stað yrði stofnaður háskóli í stað háskólaseturs á Vestfjörðum. Niðurstaðan varð uppbygging þessa glæsilega háskólaseturs sem sífellt hefur vaxið fiskur um hrygg, hefur verið að hasla sér völl á nýjum og nýjum sviðum, t.d. í haf- og strandsvæðastjórnun, og dregið til sín fjölda útlendinga sem hafa verið að nema hér og fært inn í samfélagið gríðarlega mikla peninga.

Ég hef hér í höndunum splunkunýja athugun sem gerð var á efnahagslegum áhrifum af starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða. Niðurstaðan í þeim efnum er ákaflega skýr, hún er sem sagt sú að hin efnahagslegu áhrif eru þau að starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða skilar beint og óbeint a.m.k. 203 millj. kr. til vestfirska hagkerfisins að ótöldum 32 millj. kr. sem fara til kaupa á þjónustu bæði hér á landi og erlendis. Með öðrum orðum, það er farið að muna um þetta. Þetta er eitthvað sem skiptir máli fyrir utan það að þarna sjáum við og höfum séð mikla vaxtarbrodda og mikla möguleika til þess að hasla okkur víðari og öflugri völl.

Þess vegna vakti það ekki litla athygli og óskapleg vonbrigði og sárindi þegar við sáum fjárlagafrumvarpið í haust að þar skyldu menn láta sér detta í hug að skerða fjárframlög til þessarar mikilvægu stofnunar okkar sem við höfum með blóði, svita og tárum byggt upp, að sjá það í fjárlagafrumvarpinu að skera ætti niður þessa stofnun um heil 30% á sama tíma og ætlunin var að skera niður háskólastarfsemi annars staðar að ég hygg um 5%. Þetta var auðvitað skýr stefnumörkun. Vonbrigðin voru ekki síst í því fólgin að þar hjó sá er hlífa skyldi, þ.e. iðnaðarráðuneytið, ráðuneyti byggðamála sem hafði séð þessari stofnun fyrir tilteknu fjárframlagi í ljósi þess að hún hefði byggðalega þýðingu, eins og sannaðist í þeim tölum sem ég fór með áðan, að byggðaráðuneytið sjálft, iðnaðarráðuneytið sjálft skyldi hafa haft sýnt það metnaðarleysi að láta höggin dynja á þessari litlu veikburða stofnun. Hún hefur auðvitað ekki mikla möguleika til að bæta sér skaðann. Þetta er stofnun sem er að byggja sig upp. Hún er að hasla sér nýjan völl. Hún er að sækjast eftir nemendum, ekki síst frá útlöndum og sem meira og minna eru frá útlöndum í því mastersnámi sem þar er. Þeir eru auðvitað mjög viðkvæmir fyrir því að þurfa að borga mjög há skólagjöld. Auðvitað gerðu menn sér grein fyrir því að fyrsta kastið yrði ekki hægt að seilast mjög langt í vasa nemenda eftir miklum skólagjöldum og þess vegna fóru menn mjög varlega í þeim efnum. Engu að síður var það niðurstaðan í fjárlagafrumvarpinu að skerða þessa litlu stofnun um 30%.

Nú má að vísu þakka það að meiri hluti fjárlaganefndar sýnir pínulítinn lit í þeim efnum að leggja fram tillögu um það að bæta þetta upp að nokkru, en bara að nokkru. Nú er í breytingartillögum meiri hlutans lagt til að auka fjárveitingar til þessarar litlu en mikilvægu stofnunar um heilar 12 millj. kr. Niðurskurður iðnaðarráðuneytisins var í kringum 20 milljónir. Hagræðingarkrafan nam eftir því sem mig minnir 4–5 millj. kr. Það er dregið úr þessu um 12 millj. kr. Með öðrum orðum, í stað 30% niðurskurðar verður 16% niðurskurður. Möguleikar þessarar stofnunar til að bregðast við þessu eru nánast engir.

Ég ætla að taka dæmi. Menn segja stundum: Ja, það er nú hægt að draga úr yfirstjórninni og það er hægt að draga úr ýmsum og óþörfum rekstrarkostnaði. Dagpeningar og ferðakostnaður starfsmanna nemur innan við hálfri milljón hjá þessari stofnun. Risnukostnaður háskólasetursins er innan við 50 þús. kall. Þetta er nú allt fitulagið sem er í þessari stofnun. Það er því alveg ljóst að ef þetta verður það eina sem við sjáum í fjárlagafrumvarpinu, skitnar 12 millj. kr. til að koma til móts við 25 millj. kr. niðurskurð, mun hafa mjög alvarleg áhrif fyrir þetta háskólasetur. Þetta hljómar kannski ekki sem stórar tölur og þetta eru ekki stórar tölur í öllu því mikla móverki sem fjárlagafrumvarpið sjálft er, en fyrir þessa stofnun er þetta gífurlega mikið. Niðurskurðurinn sem þarna á að framkvæma samsvarar 1/3 af launakostnaði háskólasetursins þrátt fyrir að búið sé að láta þetta ganga til baka um 12 millj. kr.

Ég vil því hvetja hv. formann fjárlaganefndar til að endurskoða þessa breytingartillögu milli 2. og 3. umr. og hækka hana a.m.k. upp í þá tölu að það gangi til baka að fullu sú skerðing sem þessi litla en mikilvæga stofnun verður fyrir vegna sinnuleysis, áhugaleysis, metnaðarleysis og undarlegrar afstöðu hæstv. iðnaðarráðherra, ráðherra byggðamála sem ætti að hafa mestan skilning á þessu máli.

Virðulegi forseti. Það er þetta sem ég nefndi nú síðast sem ég vildi sérstaklega beina til hv. formanns fjárlaganefndar. Auk þess sem ég lagði fram eina fyrirspurn til hv. formanns, eða varaformanns eftir atvikum, hvort ekki væri örugglega farið að huga að því að tryggja nægilega fjármuni til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði sem komi þá a.m.k. til móts við áform ríkisstjórnarinnar um að falla frá endurgreiðslum á virðisaukaskatti til húshitunar sem hefur munað um, rúmlega 200 millj. kr. Og alveg sérstaklega í ljósi þess að nú er verið að skerða mjög markvisst og meira en sem svarar hagræðingarkröfu iðnaðarráðuneytisins framlögin til húshitunarkostnaðar þannig að það er fyrirséð að húshitunarkostnaður á hinum köldu svæðum mun enn aukast, misvægið mun enn aukast, misræmið milli til að mynda höfuðborgarsvæðisins og dreifbýlisins mun ekki aukast og það væri ekki á það bætandi að til viðbótar við allt saman væri húshitunarkostnaður alveg sérstaklega hækkaður um 4,5%.