139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:11]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum og er afar ósáttur við þann niðurskurð sem var í fjárlagafrumvarpinu til heilbrigðis- og löggæslumála, sérstaklega á landsbyggðinni. Þær leiðréttingar sem gerðar hafa verið milli 1. og 2. umr. eru til bóta en að mínu mati ónógar, það blasa við uppsagnir, einkum kvenna í heilbrigðisstéttum. Það er óásættanlegt í þessum niðurskurði, það er tilfærsla á kostnaði.

Ég skora á þingið í heild sinni, fjárlaganefnd og ríkisstjórnina, að laga þetta til í sameiningu (BirgJ: Heyr, heyr.) þannig að hér gerum við bragarbót á svo ekki verði vegið að grunnstoðum þjóðfélagsins. Sjálfur hef ég reifað hugmyndir um tekjuöflun. Ég mun láta reyna á það innan þingflokks míns og í samstarfi við hinn stjórnarflokkinn og áskil mér síðan tillögurétt við 3. umr.