139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:12]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Alþingismenn hafa nú sett far sitt á fjárlagafrumvarpið og gert margar endurbætur á því. Það er vel. Miklu slysi hefur verið forðað í heilbrigðismálum hringinn í kringum landið og fagna ég því sérstaklega, en jafnframt að aðlögunarkrafa í menntamálum hefur verið milduð sem nemur 640 millj. kr. sem mun hjálpa mjög því samfélagi sem við búum í í dag. Nefni ég þar Háskóla Íslands sérstaklega og framhaldsskólana og eins fisktækninám í Grindavík svo dæmi séu nefnd. Við þurfum að fjárfesta í menntun núna en við megum heldur ekki ganga of langt í niðurskurði til heilbrigðismála vegna þess að þar er réttur fólks til heilsu og hann tökum við ekki af fólki.