139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:15]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þær breytingartillögur sem lagðar eru hér fram eru margar hverjar ágætar. Ég held hins vegar að þær neikvæðu hagvaxtarhorfur sem blasa við okkur séu áhyggjuefni. Það er nokkuð sem við eigum raunverulega að skoða og velta fyrir okkur hvort við séum að lenda þar inn á neikvæðari braut. Þetta er sagt án persónulegrar gagnrýni á hendur einum eða neinum en okkur ber skylda til að skoða þetta.

Hvað varðar breytingartillögurnar styð ég þær flestar en þegar kemur að heilbrigðismálum áskil ég mér sama rétt og hv. þm. Atli Gíslason nefndi áðan. Við höfum viðrað ákveðnar tillögur í þeim efnum en ég mun ekki greiða atkvæði með þeim breytingartillögum sem lúta að heilbrigðismálum og vonast til að þær verði skoðaðar milli 2. og 3. umr. (Gripið fram í: Er það virkilega?) (Gripið fram í: Stjórnin sprungin.)