139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:16]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það fer ekki fram hjá neinum að þessi fjárlagagerð hefur verið gríðarlega erfið og hún hefði orðið erfið alveg sama hvaða flokkar hefðu verið við stjórnvölinn í dag.

Mikið hefur verið rætt um heilbrigðismálin og mig langar að segja af því tilefni að heilbrigðisráðuneytið fékk þá kröfu að skera niður í heilbrigðismálum um 4,7 milljarða kr. Það er búið að lækka þá kröfu niður í 3 milljarða kr. Þetta eru eitthvað um 3,9%, ef ég man rétt.

Sá hæstv. ráðherra sem fékk það verkefni að skera svona mikið niður var hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sem hefur að mínu mati legið mjög undir ámæli fyrir þessar tillögur. Hins vegar tók annar ráðherra við, hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson, og ég held að það sé rétt að halda því til haga að það er mjög óréttmætt að ráðast eins mikið að einum fyrrverandi ráðherra og hér hefur verið gert, að hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, út frá þeirri stöðu sem sá hæstv. ráðherra var í. Það er búið að laga þessar tillögur mjög mikið með (Forseti hringir.) sameiginlegu átaki og ég hef verið hluti af því að reyna að laga þessar tillögur. Ég bið menn að hafa það í huga að tímarnir eru þannig að það þarf að spara og að mínu mati er ekki verið að breyta grunnstoðum í heilbrigðisþjónustunni eins og fjárlagafrumvarpið lítur út í dag. Ég held að menn (Forseti hringir.) geti alveg tekið gleði sína á ný út af heilbrigðismálunum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)