139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:28]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Síðan vinstri stjórnin tók við hafa verið hækkaðir ýmsir skattar, skattkerfisbreytingar gerðar og nýir skattstofnar fundnir. En þetta hefur ekki allt verið gert af mikilli hugsun. Ég ætla að nefna eitt örlítið dæmi. Það er búið að nefna dæmi um hvernig skattar á atvinnulífið hafa leitt til minni hagvaxtar en ég ætla að nefna eitt annað dæmi. Þann 1. janúar sl. var tóbaksskattur hækkaður um 10%. Þetta hefur leitt til þess að tóbakssala hefur minnkað um 12,08% og tekjur ríkisins hafa lækkað um 413 millj. kr. (Gripið fram í.) frá því í fyrra bara vegna þessa. (Gripið fram í: Frábær árangur.) Út af hverju skyldi þetta vera? (Gripið fram í: Þetta er gott.) Rökin fyrir þessu voru þau að það þyrfti að stoppa upp í fjárlagagatið. Nú á að höggva í sama knérunn (Forseti hringir.) og tekjurnar verða lægri í kjölfarið. Þetta sýnir að þetta er allt saman vanhugsað. Menn vita ekkert hvað þeir eru að gera.