139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:30]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Þar sem við erum að fara að ákveða tekjuhlið fjárlaga stenst ég ekki mátið að benda á að það eru ýmsar matarholur. Ég styð að sjálfsögðu tekjuhluta frumvarpsins en bendi á að við hefðum kannski átt að hugleiða betur og taka alvarlega hugmyndir um verulega aflaaukningu og gjaldtöku fyrir viðbótaraflaheimildir og ná þar með inn í ríkissjóð 3–6 milljörðum kr. núna þegar við stöndum í erfiðum niðurskurði hjá ríkisstofnunum og í ríkisfjárlögum. Ég mælist til að ég geti treyst því að við afgreiðslu næstu fjárlaga, þegar við stöndum hér að ári, verði búið að búa svo um hnútana að ríkissjóður hafi umtalsvert meiri og styrkari tekjustofn til að vinna úr, m.a. á grundvelli breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Á …)