139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:54]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil nefna sérstaklega lið 11 og hluta af lið 17. Það hefur lengi verið mín skoðun að Háskóli Íslands hafi alls ekki staðið sig í stuðningi við landsbyggðina hvað varðar menntun. Alþingi hefur farið þá leið að byggja upp fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar og háskólasetur hringinn í kringum landið til að koma til móts við það að Háskóli Íslands hefur ekki staðið sig, að mínu mati.

Þetta sjáum við endurspeglast í þessum liðum. Þarna er bætt við framlög til Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Háskólaseturs Vestfjarða og Þekkingarnets Austurlands. Jafnframt því fagna ég því að þarna er verið að setja aukaframlag í rannsóknir og lokaverkefni námsmanna sem skipta mjög miklu máli fyrir þá námsmenn sem fá styrki úr þeim sjóði.