139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Undir þessum dagskrárlið greiðum við m.a. atkvæði um liðinn 11.c sem er Háskólasetur Vestfjarða. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram þann 1. október gat að líta tölur um háskólasetrið sem fólu í sér 30% niðurskurð á fjárheimildum til setursins. Þar af voru felld algerlega brott framlög frá iðnaðarráðuneyti sem höfðu skapað þessari merku og mikilvægu menntastofnun grundvöll.

Nú er að vísu gengið að nokkru til baka með þennan niðurskurð og fyrir það fær meiri hluti fjárlaganefndar einn fyrir viðleitni. Engu að síður er staðan sú að þrátt fyrir þetta er verið að skera niður um 16% í háskólasetrinu, langt umfram það sem verið er að gera á öðrum háskólasviðum í landinu. 30% niðurskurður var boðaður í upphafi, nú eru það 16%. Það liggur fyrir að þetta er ígildi þriðjungs launakostnaðar háskólasetursins eða leigukostnaðar háskólasetursins á heilu ári. Það gefur (Forseti hringir.) augaleið að háskólasetrið er ekki í færum til að bregðast við þessu nema skera stórlega niður þjónustu sína.