139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um millifærslu af lið Varnarmálastofnunar yfir á liðinn varnarmál. Hvers vegna skyldum við vera að því? Jú, vegna þess að vinstri stjórnin lagði niður Varnarmálastofnun frá og með 1. janúar, byrjaði á því og ætlaði svo að koma verkefnunum fyrir víðs vegar um stjórnkerfið. En viti menn, nákvæmlega eins og varað var við oft og ítrekað við umræðuna og vinnslu þessa máls hefur þeirri vinnu ekki verið lokið. Þremur vikum áður en formlega á að leggja stofnunina niður vitum við ekkert hvert þessi verkefni eiga að fara og allt logar í bullandi ágreiningi. Það kemur ekki á óvart og ég fordæmi þessi vinnubrögð.

Svo er annað sem er líka hér á ferð og kemur kannski ekki beint fram í þessari atkvæðagreiðslu, það að þrátt fyrir að verið sé að færa þetta yfir á þennan biðreikning gátu vinstri grænir ekki setið á sér að kroppa af varnarmálaliðnum til þess að setja — hvert? Jú, til upplýsingamiðstöðvar um Evrópusambandsaðildina. (Forseti hringir.) Þetta eru hinir nýju vinstri grænu. (Forseti hringir.) Þeim er illa við varnarmálin en þeir eru komnir á ESB-vagninn.