139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni mundi örugglega farast vel úr hendi það hlutverk að vera fluga á vegg í utanríkisráðuneytinu. Hann gæti þá borið þinginu þau boð, ef hann hlustaði á samtöl mín og hæstv. dómsmálaráðherra, að það er ekki ágreiningur á milli okkar. Það er tóm vitleysa sem hér er haldið fram að það ríki ágreiningur milli þessara ráðuneyta um skiptinguna. Eins og fram kemur í lögunum sem samþykkt voru í júní sl. á þessu að vera lokið fyrir áramót og það er í fullum gangi. Hugsanlega verður ákvörðunarferlinu lokið í þessari viku.

Að því er varðar síðan þær staðhæfingar að þetta hafi ekki leitt til hagræðingar mun það koma í ljós á næsta ári þegar þetta ár verður gert upp. Það kemur nefnilega í ljós að það hefur verið hægt að hagræða gríðarlega í þessum málaflokki, spara stórar upphæðir án þess að nokkuð sé gefið eftir varðandi (Forseti hringir.) alþjóðlegar skuldbindingar. (Gripið fram í.) Þess vegna er fullkomlega rétt að hafa þennan lið með þeim hætti sem er í frumvarpinu og ég býð hv. þingmann velkominn (Forseti hringir.) í ráðuneytið í gervi flugu. (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.]