139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:36]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér er verið að heimila það að færa fjármuni úr Framkvæmdasjóði aldraðra yfir í rekstur á hjúkrunarrýmum. Framkvæmdasjóður aldraðra hefur staðið fyrir byggingum á hjúkrunarrýmum, þ.e. staðið fyrir steypunni ef svo má að orði komast. Eins og ég hélt að þingheimi væri ljóst erum við með tiltölulega mörg hjúkrunarrými í landinu. Það er ekki þörf á að byggja upp mjög mörg í viðbót á næstunni sem hefur komið fram í svari til hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar nýlega. Það var mjög gott svar og gott að fá það fram að nú er ekki tími steypunnar í þessum málum.

Það er að mínu mati skiljanlegt að menn vilji taka hluta af fjármagninu og færa það yfir í rekstur á rýmunum og sinna þá þjónustunni áfram. Ég gagnrýni ekki þessa ráðstöfun heldur sit hjá.