139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Það er full ástæða til að styðja það að hér sé bakkað með áður fyrirhugaða skerðingu á fæðingarorlofsgreiðslum með tilheyrandi kerfisbreytingum sem hefðu líklega stútað sjóðnum. Það er líka full ástæða til að geta þess af því tilefni að sjóðurinn er auðvitað mjög laskaður eftir þrjár atlögur að honum í niðurskurði á skömmum tíma á undanförnum árum. Það er ákaflega mikilvægt, og hin háa félags- og tryggingamálanefnd hefur lagt mikla áherslu á það, að farið verði í að endurskoða grundvöll Fæðingarorlofssjóðs á grunni laganna vegna þess að Fæðingarorlofssjóður á að hafa sérstakan tekjustofn í tryggingagjaldi. Það er algjörlega ástæðulaust að krukka þess vegna í Fæðingarorlofssjóð í kreppu. Hann á að geta sinnt því hlutverki sínu að Íslendingar geti lagt drög að barneignum og átt börn áhyggjulaust, hvort sem það er kreppa eða góðæri. Hann er þannig uppbyggður.