139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:54]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér kemur til atkvæða liður 79 sem snertir eingöngu sjúkrahúsið á Akureyri. Þar er talað um 4 millj. kr. framlag, það er hækkun og ég styð hana. Þetta er til að tryggja að sjúkrahúsið geti fengið til sín læknanema. Það er gríðarlega mikilvægt og gerir það að verkum að það verður auðveldara að manna læknastöður í framtíðinni. Það blasir við á sjúkrahúsinu á Akureyri að mönnunin er erfið og þess vegna hefur fjárlaganefnd ákveðið að leggja þessar 4 millj. kr. til

Ég óska hins vegar eftir því hér og nú að við séum ekki endalaust að leggja þessar 4 millj. kr. til, þetta verði einfaldlega tryggt til framtíðar þannig að það verði auðveldara að manna sjúkrahúsið á Akureyri og önnur þau sjúkrahús sem taka til sín læknanema.