139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér heyrðist vera ákveðinn misskilningur í gangi hjá hv. þingmanni áðan þegar ég var með atkvæðaskýringu um að þingheimur yrði að vita þegar við erum að taka úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Það er að gefnu tilefni því að hér er ýmislegt undir, m.a. hinar ýmsu öldrunarstofnanir. Það er ekki vegna þess að nógir peningar séu til í Framkvæmdasjóði aldraðra, það er vegna þess að það verður að fara aðra leið, það þarf að fara svokallaða leiguleið. Menn þurfa að vera meðvitaðir um að við erum þá að dreifa kostnaðinum við framkvæmdirnar til lengri tíma og það er afskaplega mikilvægt, virðulegi forseti, af fenginni reynslu að við sem förum með fjárveitingavaldið séum meðvituð um staðreyndir mála og fögnum ekki að ósekju. Hér erum við að taka lán frekar en að nýta þá fjármuni sem eru til staðar til stofnfjárkaupa.