139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:09]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við eigum að geta haft efni á menntun, heilbrigðismálum og öryggi og við skerum þar allra minnst niður í þeirri efnahagslægð sem nú blasir við okkur. Ég galt mjög varhuga við þeirri leið sem farin var í fjárlagafrumvarpinu og lýst sem aðför að heilbrigðisöryggi hringinn í kringum landið. Ég mótmælti því hressilega í ræðu og riti og geri enn. Ég tel að hér hafi verið gengið til baka og það varanlega og þessari kerfisbreytingu hrundið. Við munum hins vegar ekki geta breytt tvennu hér þótt við getum e.t.v. hagrætt inn í framtíðina, við getum ekki breytt íslensku landakorti og við getum ekki breytt íslensku veðurlagi. Þess vegna þurfum við á umdæmissjúkrahúsum að halda hringinn í kringum landið, á Ísafirði, Norðfirði og í Vestmannaeyjum, og þurfum líka sakir hagkvæmni að geta haft fólk á legudeildum heima í héraði.

Ég gef þessu atkvæði mitt í trausti þess (Forseti hringir.) að ekki verði farið umfram niðurskurðarkröfu (Forseti hringir.) hringinn í kringum landið á komandi árum, 2012 og 2013.