139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:10]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um mjög erfitt fjárlagafrumvarp af því að við ætlum ekki að verja stórum hluta fjármuna okkar í vaxtagreiðslu næstu árin. Hér erum við að tala um heilbrigðisþjónustu. Allir Íslendingar hafa búið við mjög fína heilbrigðisþjónustu en auðvitað verðum við að horfast í augu við að þar þarf líka að spara. Það sem var erfiðast við að horfa á niðurskurðinn í heilbrigðisþjónustunni sem birtist í fjárlagafrumvarpinu var sá skortur á samráði sem þar kom fram og að niðurskurðurinn skyldi koma flatt upp á starfsfólk heilbrigðisstofnana um allt land. Úr því hefur nú verið bætt um leið og umtalsvert meira fjármagn hefur verið sett inn í þjónustuna. Áframhaldandi samráði hefur líka verið lofað og ég vona að við gerum þetta vel svo við fáum góða þjónustu um allt land á sem hagkvæmastan hátt.

Gleymum því ekki að hér er líka um byggðamál, atvinnumál og jafnréttismál að ræða. Þess vegna verðum við að vanda okkur í þessu máli.