139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að menn dragi aðeins úr þeim misheppnuðu sparnaðarkröfum sem lagðar eru á þessar mikilvægu heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Það vekur athygli að hv. þingmaður og varaformaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, sem taldi þetta mjög fínar hugmyndir í upphafi sé búinn að skipta um skoðun. Það er ágætt að menn láti segjast.

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa talað um að við skulum ekki láta hér staðar numið, við skulum ekki samþykkja að það verði farið í þessa stefnubreytingu þannig að talað sé um þessar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eins og um einhverja litla landspítala. Sumir talsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa leyft sér að segja það. Þetta er alrangt, og ljóst að menn vita ekkert um hvað þeir eru að fjalla. Það er þá ágætt að þessi mál hafa fengið þetta mikla umfjöllun.

Hins vegar hef ég áhyggjur af því að með þessu útspili ríkisstjórnarflokkanna hafi athyglin verið dregin frá öðrum (Forseti hringir.) ömurlegum tillögum sem birtast okkur í þessu fjárlagafrumvarpi og því hvet ég þingmenn til að halda vöku sinni.