139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, það er illskárra að horfa á þessar tillögur eins og þær standa núna en þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Ég vil aftur gera athugasemdir við þau vinnubrögð.

Um alllanga hríð hefur óöryggi og óvissa verið aðaleinkenni starfsemi þessara tveggja heilbrigðisstofnana, á Suðurnesjum og Suðurlandi, og allra þeirra fjölmörgu sem voru líka með slíkar hagræðingarkröfur gerðar á sig í fjárlagafrumvarpinu. Það er algjörlega óboðlegt fyrir þessar stofnanir, fyrir þessi samfélög sem treysta á mikilvæga þjónustu þessa heilbrigðiskerfis, að búa við þetta óöryggi. Jafnvel þó að þessi niðurskurður hafi verið dreginn til baka sem þessu nemur núna (Forseti hringir.) er ekki séð fyrir endann á því hvernig þetta verður á næsta ári og þarnæsta. (Forseti hringir.) Þessari baráttu er ekki lokið, virðulegur forseti.