139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:20]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í dag erum við að tala um tölur og á bak við þessar tölur er fólk víðs vegar um land. Við sem ræðum pólitík fjöllum um stefnumótun og ríkisstjórnarflokkarnir segja okkur og hafa sagt okkur í fjárlagafrumvarpinu hvert þeir vilja stefna með heilbrigðismál þjóðarinnar. Það var gert án samráðs, það var gert án undanfarandi umræðna.

Hér segja þingmenn stjórnarflokkanna að þeir séu bara tiltölulega ánægðir með að dregið sé úr hagræðingunni. Það á hvergi að hvika frá þeirri stefnu sem var boðuð í fjárlagafrumvarpinu. Ég sat á borgarafundum með mörgum þessara hv. þingmanna sem lofuðu að þeir mundu berjast gegn þessari stefnu í fjárlaganefnd en standa ekki við þau orð í dag. Mér finnst það miður, það er ljótt að lofa svona upp í ermina á sér og ég mun enn á ný segja nei við þessari stefnu.