139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:25]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur með hvaða hætti á að standa að þessari sameiningu. Það er þegar búið að skipa samráðshóp sem á að vinna að þessu, tveir frá hvorum aðila auk þess sem heilbrigðisráðuneytið á aðild að hópnum. Það er sá hópur sem á að ákveða hvorum megin maður sinnir best þjónustunni á sem hagkvæmastan hátt og hvaða verðmæti felast í aðgerðum á hvorum stað fyrir sig. Það skal ég segja að þó að ég sé ágætlega menntaður maður treysti ég öðrum betur en sjálfum mér til að meta hvorum megin hlutirnir eiga að vera þótt aðrir telji sig þess umkomna að meta það úr ræðustól án sérstakrar skoðunar.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að það skiptir mjög miklu máli að eyða óvissu í heilbrigðismálum. Þess vegna þurfum við að móta stefnu til lengri tíma. Hér hefur verið kastað fram skýrslum eins og Kragaskýrslunni á sínum tíma. Það hefur komið fram áður við umræður um St. Jósefsspítala þannig að verkefni næsta árs er einmitt að vinna úr þessum hugmyndum, reyna að komast áfram og til botns í málinu og reyna að skapa öryggi til lengri tíma. Það er það sem verið er að leggja grunn að hér.

Þessu til viðbótar vil ég bæta við um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem kom ekki fram (Forseti hringir.) í plagginu áðan að þangað eru settar 150 millj. kr. til að auka hjúkrunarrými. Þar er ekki um að ræða peninganiðurskurð, alls ekki. (Forseti hringir.) Það ætti ekki að hafa áhrif á atvinnumálin þar.