139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það eru mjög margir liðir undir þessu yfirliti, m.a. Sjúkratryggingar Íslands. Hér hefur mönnum orðið tíðrætt um heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og þá vek ég athygli þingheims á því að gert er ráð fyrir 3 þús. millj. kr. niðurfærslu hjá Sjúkratryggingum Íslands. Það hefur hvergi komið fram hvernig á að ná því fram, það á eftir að móta þá stefnu. Þetta er nákvæmlega það sama og gerðist í fyrra. Niðurstaðan varð sú að hæstv. ríkisstjórn hamaðist á forstjóra viðkomandi stofnunar og endaði með að reka stjórnina. Það náðist enginn árangur og Ríkisendurskoðun lagði sérstaka áherslu á að það væri hæstvirts ráðherra og ríkisstjórnar að koma fram með stefnu í þessu máli. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að koma fram með stefnu í þessu máli (Forseti hringir.) áður en við klárum þessi fjárlög. Það er skylda hennar.