139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að koma upp og ræða þetta mikla framfaramál. Eftir gott samstarf þingmanna úr öllum flokkum hefur málum lyktað þannig að meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram tillögu um að setja 350 millj. kr. í auknar framkvæmdir á sviði ofanflóðavarna. Það eru framkvæmdir í Neskaupstað og á Ísafirði. Með þessum aðgerðum tryggjum við öryggi íbúa í þessum byggðarlögum. Það eru heilmiklir fjármunir til í þessum sjóði. Betur má samt ef duga skal, það eru fleiri framkvæmdir sem mega ekki bíða öllu lengur. Ég get nefnt til að mynda ofanflóðavarnir á Siglufirði. Það er mikilvægt að við höldum þessu áfram og ég hvet okkur alla, hvar sem við stöndum í flokki, þingmenn, til að standa vörð um öryggi íbúða og fólks á þessum svæðum auk þess gleðilega að þetta mun skila hundruðum ársverka á næstu (Forseti hringir.) 2–3 árum sem skiptir miklu máli í dag.