139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem hér er lagt til, þ.e. að auka framlög til ofanflóðasjóðs til að gefa í hvað varðar framkvæmdir. Það þekkja þeir vel, virðulegi forseti, sem hafa búið og búa á stöðum þar sem snjóflóðahætta er fyrir hendi. Þeir þekkja líka vel sem búa á stöðum þar sem byrjað er að vinna snjóflóðavarnir hversu mikilvægt þetta er.

Þess vegna fagna ég því að þetta skuli loksins komið inn núna, þessar 350 millj. kr. sem verið er að gefa í til snjóflóðavarna í Neskaupstað og á Ísafirði til að hefja þær framkvæmdir. Aðrar koma svo í framhaldi af því á næstu árum vegna þess að það verður að halda áfram.

Eins og hér hefur komið fram, virðulegi forseti, er þetta skattur sem allir landsmenn greiða í ofanflóðasjóð. Hann er notaður til að verja byggðir og fólk. Því verður að halda áfram. Auk þess er þetta mjög atvinnuskapandi og er einn þáttur í því sem ég hef talað um við þessa fjárlagaumræðu að muni gerast á næsta ári, þ.e. að atvinna muni aukast, þar með hagvöxtur og þá munum við sjá betri tíð með blóm í haga á næsta ári. (Gripið fram í: Hárrétt.)