139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[10:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég geng alltaf út frá því og efast aldrei um það að allir þeir sem taka sæti á Alþingi geri það til að láta gott af sér leiða og öll höfum við okkar hugsjónir. Ég tel að það sé ekki verri hugsjón en hver önnur að eyða allri orku sinni og kröftum í að reyna að koma Íslandi í gegnum þessa erfiðleika og koma því aftur á rétt spor og það er að ganga að mínu mati nokkuð vel miðað við það hversu mikinn vanda bar að höndum árið 2008. Við getum síðan lagt okkar mat á hlutina, einstaka þætti þess sem verið er að gera hverju sinni, en það væri til að byrja með ágætt ef við værum sammála um að við lítum öll á það sem stórt sameiginlegt verkefni að koma Íslandi í gegnum þessa erfiðleika og leggja grunn að endurreisn í samfélaginu. Við ætlum að reyna að gera þetta þannig að við stöndum vörð um undirstöður velferðarsamfélagsins þannig að það sé allt til staðar og við getum síðan notað batnandi þjóðarhag á komandi árum til að efla það á nýjan leik. Við verðum að horfast í augu við að við verðum að draga saman á ýmsum sviðum og það kemur alls staðar við í samfélaginu. Aðalatriðið er þá að við höldum því góða grunnfyrirkomulagi sem við erum með og það tel ég að við séum að gera. Ef farið er yfir það er verið að viðhalda undirstöðum velferðarsamfélagsins. Við greiðum vaxtabætur, barnabætur, húsaleigubætur. Við erum með okkar almannatryggingakerfi, sjúkratryggingar, fæðingarorlof og þó að við höfum neyðst til að draga úr kostnaði við framkvæmd þessara kerfa þá hefur ekkert þeirra verið lagt af, ekki heldur þau sem eru tiltölulega nýlega til komin. Við höfum ekki bakkað með þær breytingar sem t.d. voru gerðar í áföngum á stöðu öryrkja, að hætta að miða við tekjur maka o.s.frv., þannig að þetta er allt til staðar. Takist okkur að varðveita þetta áfram þá getum við um leið og þjóðarhagur leyfir bætt í og gert kjör þeirra sem þarna eiga undir betri. Ég kann enga aðra (Forseti hringir.) betri formúlu til að fara í gegnum þetta en þá að reyna að varðveita grunngerð samfélagsins sem við erum sammála um, koma þessu öllu saman í gegnum erfiðleikana þannig að það sé til staðar þegar betur árar og við getum farið að bæta í.