139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[10:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi gersamlega skautað fram hjá því sem var meginefni athugasemdar minnar og fyrirspurnar. Ég held að það sé yfirleitt talið tiltölulega stórmannlegt ef maður þakkar fyrir það sem vel er gert. Ég held að það sé alveg ástæða til þess að hæstv. fjármálaráðherra þakki fyrir að það skuli vera fólk, bæði í Alþingi og fyrir utan þessa veggi, sem hafi haft hugrekki og hugsjónir til að standa á sínu. Það mun ekki gera hans verk eða það sem hann hefur lagt á sig minna þó að hann komi því þakklæti á framfæri.

Ég vil ítreka það sem ég nefndi í lokaorðum mínum, mikilvægi þess að við hlustum á sérfræðinga. Þar sem rannsóknir hafa sýnt að þær tillögur sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt til varðandi harðan niðurskurð í þeim löndum þar sem kreppa er hafa leitt til að kreppan hefur orðið dýpri tel ég fyllstu ástæðu til að hlusta alla vega á þá sérfræðinga sem við eigum, þó ekki sé nema á sinn eigin þingmann.