139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[10:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er sammála því að við eigum að hlusta á sérfræðinga, nota okkur alla þá ráðgjöf og aðstoð sem við höfum ráð á að láta eftir okkur. Við höfum t.d. gert það í svonefndu Icesave-máli og einhvern tíma munu allir þeir reikningar birtast sem sú sérfræðivinna hefur kostað. Ég mæli m.a. með því að menn hlusti á þau ágætu sjónarmið og þau rök sem formaður samninganefndarinnar kom vel á framfæri núna yfir helgina í sínu máli.

Varðandi efnahagsáætlun og samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þá er nauðsynlegt að maður hafi í huga að það er búið að endurskoða hana verulega og oftar en einu sinni. Það er búið að draga umtalsvert úr þeim niðurskurði eða þeirri aðlögun sem upphafleg áætlun gerði ráð fyrir eða sem nemur 3–3,5% af vergri landsframleiðslu. Þar sem okkur hefur gengið betur, bæði á árinu 2009 og aftur árinu 2010, verður þessi aðlögun mun mildari en upphaflega stóð til og við erum enn að taka út núna, í fjárlagafrumvarpinu eins og það liggur fyrir eftir 2. umr., um 0,5% af landsframleiðslunni í minni niðurskurði og minni aðhaldsaðgerð. Svo eiga auðvitað allir þakkir skildar sem vinna hörðum höndum hér á Alþingi og reyna að leggja sitt af mörkum, að sjálfsögðu allir.