139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

landsdómur og Icesave.

[10:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við sjálfstæðismenn erum ósammála hæstv. fjármálaráðherra í mörgu. Eitt af því sem við tókumst mjög hart á um fyrir nokkru var svokallað landsdómsmál. Þar ruddi hæstv. fjármálaráðherra ákveðna braut sem við vorum afskaplega ósátt við og erum enn.

Það er hins vegar alveg ljóst að ef túlkun hæstv. fjármálaráðherra er eitthvað sem er komið til að vera þarf að draga hæstv. fjármálaráðherra fyrir landsdóm — og ég ítreka, virðulegi forseti, að ég er enn ósammála túlkun hæstv. fjármálaráðherra hvað það varðar. Ég vil hins vegar spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem ruddi þessa braut, hvort hann sé enn þessarar skoðunar eða hvort hann hafi skipt um skoðun.

Það er alveg ljóst að það var frekar, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið, óljóst þegar meiri hluti þingmanna, undir forustu hæstv. fjármálaráðherra, samþykkti að sækja Geir H. Haarde fyrir landsdóm. Nú er hins vegar alveg skýrt að hæstv. fjármálaráðherra skrifaði undir samning sem hann hafði ekki meiri hluta þingsins fyrir. Nú er það alveg skýrt og meira að segja kominn verðmiði á það hvaða hagsmunum Íslands hann var að ógna — það er kominn 400 milljarða verðmiði.

Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan fá svar frá hæstv. fjármálaráðherra, hvort hann sé enn þessarar skoðunar og hvort hann muni þá beita sér fyrir því að haldið verði áfram á þessari braut eða hvort hann hafi skipt um skoðun. Ég vona svo sannarlega að hann hafi skipt um skoðun og vil þá gjarnan fá rökstuðning fyrir því.