139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

verðbréfaviðskipti bankanna.

[10:51]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Samkvæmt heimildum hafa umtalsverð verðbréfaviðskipti átt sér stað milli Lánamála ríkisins annars vegar og Arion banka og Íslandsbanka hins vegar, verðbréfaviðskipti sem virðast með ábyrgð ríkisins en eru samt utan efnahagsreiknings ríkissjóðs og nema að upphæð vel yfir 100 milljörðum kr. Viðskiptablað Morgunblaðsins nefnir upphæðina 141 milljarð en mínar heimildir eru upp á 145 milljarða.

Viðskiptin eru með þeim hætti að fjármálaráðuneytið, í gegnum Lánamál ríkisins, afhendir viðkomandi bönkum verðbréf gegn tryggingu í þrotabúum SPRON annars vegar og Straums – Burðaráss hins vegar. Bankarnir leggja svo bréfin inn í Seðlabankann og fá í staðinn laust fé. Seðlabankinn hafnaði hins vegar þessum tryggingum og fjármálaráðuneytið hefur því gengist í fulla ábyrgð fyrir því að bera alla fjárhagslega ábyrgð á verðbréfaviðskiptunum fyrir hönd bankanna ef eitthvað vantar upp á settar tryggingar. Bankarnir hafa þegar nýtt sér þessar heimildir og ábyrgð ríkisins virðist vera orðin virk þó að hennar sé hvergi getið í lögum. Því vil ég spyrja ráðherrann fjögurra spurninga:

1. Er þetta rétt og með hvaða heimild er þetta þá framkvæmt?

2. Hvers vegna eru bankarnir að nýta sér þessa heimild ef lausafjárstaða er eins góð og hún virðist vera samkvæmt níu mánaða uppgjöri og er heimildin til þeirra algerlega opin?

3. Er um að ræða nýja útgáfu af svokölluðum ástarbréfaskiptum þar sem ríkið, þ.e. fjármálaráðuneytið og þar með skattgreiðendur, eru nú í beinni ábyrgð á gjörningnum?

4. Þar sem þetta ferli virðist vera vel komið af stað og vel það og býður heim mikilli áhættu, hvaða tryggingu getur fjármálaráðherra gefið sparifjáreigendum, fjárfestum og skattgreiðendum um að hér muni ekki ríða yfir annað stóráfall í fjármálageiranum með tilheyrandi kostnaði?