139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

verðbréfaviðskipti bankanna.

[10:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Því er ég að vísa í neyðarlögin að þau gerðu auðvitað þá grundvallarbreytingu að gera innstæður að forgangskröfum og það þýðir aftur að hægt er að taka allar þær eignir sem til staðar eru eftir því sem þörf er til að tryggja þær innstæður þegar atburðir af þessu tagi gerast.

Það er alveg hárrétt, og við erum sammála um það þingmenn, að enginn hefur gaman af því að borga 73 milljarða kr. í vexti á næsta ári. Ég vakti athygli á því undir lok langrar atkvæðaskýringar að það væri gott að menn hefðu þessa tölu alltaf í huga þegar þeir eru að tjá sig um aðra þætti, svo sem eins og aukin útgjöld umfram tekjur, því að það er þá ávísun á það að þessi tala hækki, þessi 73 milljarða kr. vaxtakostnaðartala sem áætluð er á næsta ári. Vonandi erum við öll sammála um að það er ekki síst hún sem við þurfum að ná niður.

Ég tel að það sé að vinnast þannig úr þessum hlutum að strax í upphafi næsta árs og vonandi að mestu leyti fyrir áramót klárist þessi fjárhagslega endurskipulagning í fjármálakerfinu. Við vonumst til þess að samningar um síðustu sparisjóðina verði í höfn fyrir áramót og það verði þá fyrst og fremst eftirstöðvar, einhverjar minni háttar, sem ganga inn á nýju ári og þá er heilmikið unnið ef við erum komin í gegnum þá risavöxnu aðgerð að endurreisa svo til allt bankakerfið í landinu.