139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

menningar- og heilsutengd ferðaþjónusta á höfuðborgarsvæðinu.

207. mál
[11:19]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa átt sér stað. Varðandi það að stjórnsýslan og stjórnkerfið séu eingöngu ætluð landsbyggðinni þá vil ég mótmæla því vegna þess að frá hruni t.d. hefur uppbygging frumkvöðlasetra af hálfu Nýsköpunarmiðstöðvar nánast eingöngu átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu. Þar hafa vel á annað hundrað fyrirtæki orðið til og eru í starfsemi tengdri frumkvöðlasetrunum.

Menn reyna auðvitað að bregðast við þar sem vandinn er mestur hverju sinni. Við lendum hins vegar í því, virðulegi forseti, og ég hef tekið eftir því eftir að ég kom í iðnaðarráðuneytið, að við frystum stofnanir í tíma og rúmi og sjóði sömuleiðis með lögum og fjárlögum. Það er ofsalega erfitt að gera breytingar og lítill sem enginn sveigjanleiki er í kerfinu. Þetta þýðir að núna t.d. þegar ferðamálin eru farin að skila okkur 155 milljörðum í gjaldeyristekjur hefur stoðkerfi þeirra, bæði í stjórnsýslunni og annars staðar, ekkert vaxið til samræmis við það. Við þurfum auðvitað að horfa til þessa. Núna er ég að láta vinna að algerri endurskoðun á stoðkerfi atvinnulífsins, því sem er á höndum okkar, þannig að auka megi sveigjanleikann sem við þurfum svo mjög á að halda.

Annars verð ég líka að nefna að við erum á leiðinni inn á nýja braut. Þeir fjármunir sem hv. þingmaður fjallaði um og Ferðamálastofa hefur haft til úthlutunar, eru auðvitað smápeningar. Það sem við horfum til núna er Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Það verður alvörusjóður með alvörufjármuni til að fara í alvöruppbyggingu á ferðamannastöðum um land allt. Leiðarljósið í þeirri uppbyggingu allri saman og við úthlutun sjóðsins verður fyrst og fremst fagmennska og gæði en ekki staðsetning. Eingöngu (Forseti hringir.) verður horft til þess hversu vel hlutirnir eru gerðir, til gæða fyrst og fremst, virðulegi forseti.