139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

orka í jörð í Þingeyjarsýslum.

232. mál
[11:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Eðli málsins samkvæmt er mjög rætt um atvinnuuppbyggingu víða um land og þar er vitaskuld hægt að fara margar leiðir. Umræða um stóriðjuuppbyggingu á svæðum sem gjarnan eru kennd við Þeistareyki í Norðausturkjördæmi hafa verið til umræðu, hvort heldur er álversuppbygging eða uppbygging á öðrum orkufrekum iðnaði og má þar einu gilda.

Ég vil hins vegar dvelja við vísindalegar upplýsingar um orkumagn á þessu svæði vegna þess að þær hafa verið umdeildar. Menn hafa m.a. velt fyrir sér hvort það sé fjarri lagi að fara með álíka orkurisa norður á Bakka eins og reistur var í Reyðarfirði og menn þekkja. Þessar upplýsingar þurfa vitaskuld að liggja fyrir og eru að því er mér sýnist, a.m.k. samkvæmt umræðunni, mjög á reiki. Menn hafa nefnt tölur allt niður í 100 megavött og jafnframt heyrast tölur í kringum 440 megavött. Eins og nærri má geta samkvæmt þessu eru tölurnar um orkumagn í jörðu á Norðausturlandi afskaplega mikið á reiki. Þess vegna hefur umræðan um atvinnuuppbyggingu á þessu svæði sömuleiðis verið á reiki enda telur sá sem hér stendur í sjálfu sér miklu eðlilegra að fara hægt af stað í atvinnuuppbyggingu á svæðinu og bæta svo um betur ef meiri orka reynist vera þar í jörðu en nú þegar er ljóst.

Ég beini því þeirri fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra hverjar séu nákvæmlega tölurnar um orkumagn í jörðu í Þingeyjarsýslu samkvæmt vísindalegum niðurstöðum sem nú liggja fyrir. Eflaust er hægt að rekja það frá einu svæði til annars. Hér hefur Þeistareykjasvæðið verið nefnt en jafnframt hafa menn nefnt Kröflusvæðið og Bjarnarflag og allt reyndar austur í Víti ef menn vilja færa sig enn austar. Spurningin lýtur að því orkumagni sem nú þegar er vitað um í jörðu á þessu svæði samkvæmt vísindalegum niðurstöðum og þar til bærum aðilum sem um það hafa vélað á svæðinu á undanförnum mánuðum.