139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

orka í jörð í Þingeyjarsýslum.

232. mál
[11:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að það vantar nýjar tölur. Það er líka rétt hjá hæstv. ráðherra að hvorki þingmenn né ráðherrar munu vita mest um það hver orkan er sem leynist þar. Með aukinni reynslu okkar í jarðhitageiranum hefur komið á daginn að orkan sem er í jörðinni, orkan sem til stendur að nýta, er oft og tíðum meiri en gert var ráð fyrir en ekki minni, svo að það sé sagt hér. Við eigum því að vera bjartsýn á nýtinguna.

Það er áhugavert að hér eru fjórir þingmenn úr öðrum ríkisstjórnarflokknum að fjalla um þetta mál og mér heyrist að undirtónninn sé sá að þeir séu ekki algerlega sammála um allt í þessum málum, sem getur út af fyrir sig verið ágætt. En lykilatriðið er að fara að huga að atvinnuuppbyggingu á skynsamlegan hátt, ekki síst á þessum hluta landsins, þar sem veruleg þörf er á. Þar er orka og við skulum nýta hana.