139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins.

231. mál
[11:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér hjákátlegt ef ekki broslegt að einungis ein ríkisstofnun, þ.e. aðalskrifstofa hennar, skuli hafa verið flutt út á landsbyggðina á síðustu 100 árum. Þar á ég við aðalskrifstofu Skógræktar ríkisins en nú eru einmitt 20 ár liðin frá því að aðalskrifstofa þeirrar góðu stofnunar var flutt á Fljótsdalshérað úr Vesturbæ Reykjavíkur þar sem hún kúldraðist í litlu leiguhúsnæði, ef ég man rétt. Þessi merka stofnun var stofnuð samkvæmt lögum frá 1907 og sett á laggirnar árið 1908 og var eðli máls samkvæmt lengst af starfrækt í Reykjavík en flutt austur á Hérað þar sem margir töldu að hún ætti betur heima í því mikla skógræktarlandi sem þar er.

Þetta er eina stofnunin sem flutt hefur aðalskrifstofu sína út á land á 100 árum og er það út af fyrir sig merkilegt. Starfsmenn aðalskrifstofunnar eru um 10 og allir búsettir fyrir austan, þar á meðal forstöðumaðurinn Jón Loftsson. Að auki eru á milli 50 og 60 starfsmenn Skógræktar ríkisins dreifðir vítt og breitt um landið eins og nærri má geta og verkefnin víða mikil enda þótt einungis 1,3% af landinu okkar góða séu þakin skógi — eftir því sem ég hef heyrt hefur sú tala reyndar lækkað eftir nákvæmar mælingar starfsmanna umræddrar stofnunar. En það er önnur saga.

Því er á þetta minnst að ég tel að við núverandi aðstæður sé að mörgu leyti þjóðhagslega hagkvæmt að flytja stofnanir út á land, Landhelgisgæsluna til Keflavíkur og ýmiss konar opinbera þjónustu er lýtur að matvælarannsóknum á Selfoss svo að dæmi séu nefnd. Ég vil leyfa mér að segja að margar þeirra stofnana sem prýða Reykjavík eigi betur heima úti á landi nær þeim verkefnum sem við blasa. Þetta er þjóðhagslega hagkvæmt að mörgu leyti enda hefur verið bent á það af ýmsum forstöðumönnum að rekstur slíkra stofnana úti á landi þýði lægra leiguverð, minni starfsmannaveltu og jafnvel meiri viðveru starfsmanna eftir því sem einhverjar athuganir hafa leitt í ljós.

Ég beini þeirri spurningu til hæstv. umhverfisráðherra hvort á einhverjum stigum fjárlagagerðar hafi komið til greina að flytja aðalskrifstofu Skógræktar ríkisins, þessarar einu stofnunar sem hefur verið flutt út á land, aftur í Vesturbæinn.