139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins.

231. mál
[11:48]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða þó hún sé kannski fullstutt þegar við erum komin í meginlínurnar, þ.e. hvar opinber starfsemi eigi að vera stödd almennt. Ég ætla svo sem ekki að blanda mér í það sérstaklega en ég vil staldra ögn við orð þingmannsins varðandi stóriðju Eyjafjarðar, að það sé Háskólinn á Akureyri. Ég tek undir það í meginatriðum en vil samt minna hv. þingmann á það og þingheim allan að einu sinni var álver í Eyjafirði talin eina leiðin til að snúa við hnignun þess svæðis. Það hefur sem betur fer breyst og sýn heimamanna á það hver sé eina leiðin til að þróa það samfélag til góðs.

Starfsemin í umhverfismálum almennt fer eðli málsins samkvæmt fram um allt land, málaflokkurinn er þess eðlis, og þarf að vera mikil starfsemi í návígi við það sem um ræðir. Ég vil nefna til viðbótar starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs, landvörslu þar, starfsemi Umhverfisstofnunar í kringum friðlýst svæði sem eru hartnær 100 talsins um allt land og starfsemi Veðurstofu Íslands sem ég nefndi áðan og fleiri stofnana ráðuneytisins. Hvar aðalskrifstofan er stödd nákvæmlega er í mínum huga ekki meginmálið heldur kannski fjöldi starfa. Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að huga að, við þingmenn og ráðherrar þegar við setjumst yfir fjárlagagerð, að hafa einhvers konar starfabókhald. Það væri auðvitað bragur á því ef við sæjum nákvæmlega hvert störfin flytjast. Staðreyndin er auðvitað sú að atvinnuleysið heggur sárast á Suðurnesjunum og við ættum að hafa mestar áhyggjur af því svæði akkúrat núna. Eitt starf til eða frá í einum fjórðungi eða öðrum breytir engu um það þótt það kunni oft að vera táknrænt. Það sem er að gerast í þessum efnum er að við þurfum að efla heildaryfirsýn okkar í málinu og ég held að við getum notað þetta tækifæri (Forseti hringir.) og þessa umræðu til að vekja okkur til umhugsunar um það hér.