139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

eftirlit með loftgæðum.

271. mál
[11:59]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég met það mikils að þingmaðurinn skuli taka þetta málefni upp vegna þess að hún talar af þekkingu á svæðinu og veit vel um hvað málið snýst.

Varðandi þau tól og tæki sem við höfum í lögum og reglugerðum þá mun ég skoða það í framhaldi af þessari umræðu með hvaða hætti við getum styrkt þann umbúnað sem við þó þegar höfum og efla það að gefnar verði út viðvaranir fyrir almenning. Eitt af því sem er mikilvægast þegar mengun, og ég tala ekki um svifryksmengun eða brennisteinsvetnismengun, er annars vegar er gagnsæi og upplýsingar til almennings. Aðgengi almennings að upplýsingum um magn í lofti hefur verið eflt mjög og gagnsæi mælanna sem eru uppi og sýnileiki mælitalna á netinu er líka að verða miklum mun öflugra. Umhverfisstofnun hefur áform um að styrkja það enn frekar þannig að ég mun eftir þessa umræðu kanna sérstaklega með hvaða hætti við getum styrkt regluverk okkar til að auka öryggi almennings í þessum efnum.