139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

álagning virðisaukaskatts á sölu vef- og rafbóka, hljóðbóka, nótnabóka, landabréfa o.þ.h.

175. mál
[12:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Á undanförnum árum hafa rutt sér til rúms vefbækur og rafbækur af ýmsu tagi. Því miður eru engar rafbækur enn til á íslensku svo ég viti en tækin, bókhlöðurnar sem menn hafa m.a. stungið upp á að kalla þetta, eru orðin nokkuð útbreidd og menn fá rafbækur á erlendum málum í þau tæki. Vefbækur ýmsar hafa verið á íslensku nokkuð lengi og t.d. er seldur aðgangur á netinu að ýmsum orðabókum, þar á meðal snöru.is sem við alþingismenn getum notað okkur og kemur að miklu gagni.

Við hv. þm. Helgi Hjörvar fluttum um það tillögu haustið 2008 að þessar vörur yrðu settar í sama virðisaukaskattsflokk og prentbækur af augljósum menningarlegum og menntalegum ástæðum auk samkeppnisviðhorfa. Við fjölluðum líka um landakort sem nú eru í tveimur flokkum, í hærri flokki eru samanbrotin kort, sem eru venjulegu, gömlu kortin sem við þekkjum best, en í lægri flokki ef þau hafa verið bundin í bók eða settir gormar um kortasíður, sem er auðvitað einkennilegt.

Það náðist ekki að afgreiða þessa tillögu úr nefnd þrátt fyrir lofsamlegar umsagnir, líklega m.a. vegna þess að ríkisskattstjóri benti á í umsögn sinni að hér væri ýmislegt til umhugsunar og er það rétt hjá honum. Endirinn varð sá í þetta sinn, alveg ágætur, að í nefndaráliti í desember 2009 um frumvarp til laga um ráðstafanir í skattamálum var tekið fram, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn tekur fram að á fundum nefndarinnar hafi komið fram sá skilningur fjármálaráðuneytis og skattyfirvalda að endurskoða þurfi verklag við álagningu virðisaukaskatts á sölu vef- og rafbóka, hljóðbóka, nótnabóka, landabréfa o.þ.h.“

Nú ári síðar er einfaldlega spurt hvernig líði þessari endurskoðun hjá fjármálaráðuneyti og skattyfirvöldum.