139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

álagning virðisaukaskatts á sölu vef- og rafbóka, hljóðbóka, nótnabóka, landabréfa o.þ.h.

175. mál
[12:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það að ráðuneytið meti stöðuna svo á þessu stigi að ekki séu efni til breytinga þýðir ekki það sama og að ekkert hafi verið gert eða ekkert sé að gerast. (MÁ: Það var ekki spurt um ráðuneytið heldur ráðherrann.) Já, já, ráðherrann er að svara hérna og byggir það á vinnu sérfræðinga ráðuneytisins. Ég held að því verði ekki á móti mælt að menn hafa ekkert kinokað sér við að vinna í skattamálum á undanförnum missirum og mikið verið að gert í þeim efnum og mikið undir. En ekki er heldur hægt að ýta alveg til hliðar þeim sjónarmiðum sem ég gerði grein fyrir. Það er líka sjónarmið að eitthvert samræmi sé í framkvæmd þessara mála milli landa. Það er alveg hárrétt að við erum ekki bundin af slíku. Við erum ekki bundin af því í sjálfu sér sem er á dagskrá hjá OECD en eitt af því sem maður hefur verið kannski hvað ánægðastur með hjá þeirri stofnun er hvernig hún hefur reynt að knýja ríki til samstarfs um að loka skattasmugum. Það er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann tekur þátt í slíku en nauðsyn samræmdra aðgerða blasir samt við. Þá er gagnlegt að hafa stofnanir eins og OECD sem reyna að knýja á um samræmingu og samræmdar aðgerðir á þessum sviðum.

Það eru ótal álitamál uppi sem tengjast meðferð og skattlagningu rafrænnar þjónustu og rafrænna viðskipta. Það er flókinn heimur og síbreytilegur og menn viðurkenna alveg vanmátt sinn upp að vissu marki í því að elta þróunina á þeim sviðum. Það hefur t.d. komið upp í sambandi við álitamál sem tengjast skattalegri meðferð viðskipta með rafræna þjónustu yfir landamæri sem í raun eru ekki til í þessum heimi. Við vorum að taka á einum þætti þess máls með frumvarpi sem er til umfjöllunar hjá þingnefnd akkúrat í augnablikinu um hvernig haga skuli virðisaukaskattlagningu eða öllu heldur ekki skattlagningu þegar um útflutning á rafrænni þjónustu er að ræða. Því er ekki að neita að þetta er flókinn heimur sem þarna er verið að reyna að takast á við með að einhverju leyti hefðbundnum og kannski gamaldags úrræðum í skattalegu (Forseti hringir.) tilliti þar sem menn eru vanari því að hlutirnir séu annaðhvort efnislegir eins og prentaðar bækur, eða áþreifanlegir eins og viðskipti sem fara yfir landamæri sem ekki eru til í rafrænni þjónustu.

Ég segi ekki að þetta kunni ekki að taka (Forseti hringir.) breytingum á komandi mánuðum, missirum og árum en þannig er staðan í augnablikinu.