139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

aukin verkefni eftirlitsstofnana.

240. mál
[12:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að fylgja eftir óskum ýmissa heilbrigðiseftirlita hringinn í kringum landið og eftir atvikum fleiri eftirlitsstofnana sem hafa reynt að fá til sín aukin verkefni. Við erum hér að tala um framsal verkefna frá stofnunum sem eru miðlægar í Reykjavík út í héruðin. Mig langar að vitna í nýlegt bréf, alltént frá þessu ári, frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands en það hefur verið í fararbroddi þeirra heilbrigðiseftirlitssvæða sem hafa óskað eftir framsali verkefna frá Umhverfisstofnun, ekki síst í ljósi þess að það hefur verið yfirlýst stefna stjórnvalda að færa skuli verkefni út á landsbyggðina og einnig að þjónusta skuli vera sem næst þjónustuþega.

Ég vitna, með leyfi forseta, til nýlegs svars sem Heilbrigðiseftirlit Austurlands fékk frá ráðherra, dags. 7. júlí á þessu ári, en þar segir:

„Ráðuneytið tekur undir að færa eigi eftirlit frá Umhverfisstofnun til heilbrigðisnefnda þegar slíkt hefur í för með sér aukna hagkvæmni í eftirliti, þar sem hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd hefur óskað eftir því og þegar það tryggir fullnægjandi fagþekkingu varðandi umhverfiseftirlit með umræddri starfsemi.“

Hér er um svar ráðherra að ræða. Í bréfi Heilbrigðiseftirlits Austurlands segir jafnframt að þrátt fyrir þetta hafi þrír forstjórar Umhverfisstofnunar allir hafnað frekara framsali verkefna og núverandi forstjóri hefur sagt upp gildandi samningum þannig að þeir renna að óbreyttu út um áramót. Þar með munu verkefni væntanlega færast frá landsbyggðinni og frá sveitarfélögum á Austurlandi til ríkisstofnunar í höfuðborginni.

Með leyfi forseta segir síðar í þessu ágæta bréfi Heilbrigðiseftirlits Austurlands:

„Þrátt fyrir ákvörðun um óbreytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hvað varðar matvælaeftirlit þegar Matvælastofnun var sett á laggirnar hefur eftirlit með hvers konar kjötvinnslu utan sláturhúsa, mjólkurstöðvum og litlum fiskvinnslum verið fært frá heilbrigðisnefndum til Matvælastofnunar. Unnið er að samningum um framsal þar sem það þykir hagkvæmt en ekki hefur verið gengið frá samningum og mikil óánægja er meðal heilbrigðiseftirlitssvæða, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, hve treg stofnunin er til að framselja eftirlit með fyrirtækjum sem Heilbrigðiseftirlit hefur sinnt árum saman. Þarna er í raun um að ræða tilfærslu verkefna frá sveitarfélögum til ríkis.“

Í lok þessa bréfs Heilbrigðiseftirlits Austurlands, frú forseti, segir:

„Spurning til forsvarsmanna stjórnvalda er hvort og að hve miklu leyti sé ásættanlegt að stofnanir ríkisins vinni þvert á anda stefnu ríkisstjórna.“

Þessari spurningu er hér með komið til hæstv. ráðherra.