139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

aukin verkefni eftirlitsstofnana.

240. mál
[12:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn. Þó það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að ekki heyri allar eftirlitsstofnanir undir fjármálaráðuneytið þá er ekki óeðlilegt að þeirri fyrirspurn sé beint til annars forsvarsmanns ríkisstjórnarinnar með hvaða hætti ríkisstjórnin framfylgir yfirlýstri stefnu sinni. Það hefur komið fram, sérstaklega hjá Samfylkingunni en líka ríkisstjórninni, í svokallaðri Sóknaráætlun 20/20, að meiningin hefur verið að byggja upp svæði á landinu þar sem öll þjónusta færi fram. Ég hef margoft komið hingað upp og spurt hvernig þeirri vinnu væri háttað þegar menn eru að skera niður stofnanir hægri og vinstri og færa þá gjarnan verkefni frá sveitarfélögum yfir til ríkisins og þá til Reykjavíkur, hvernig það samræmist Sóknaráætlun 20/20. Ég held að hún hafi alveg gleymst en ég tek undir að þetta er mjög mikilvægt. Ekki hvað síst á þeim tveimur sviðum sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. Matvælastofnun og Umhverfisstofnun, er beinlínis greinilegt að þær stofnanir ganga í berhögg við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar.