139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

áhrif fækkunar ríkisstarfsmanna á fjárhag sveitarfélaga.

242. mál
[12:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Eins og alþjóð veit er ríkissjóður beittur miklu aðhaldi og þarf ekki að fara mörgum orðum um þær niðurskurðaraðgerðir sem fram hafa farið. Meginmarkmið fjárlagagerðar er að gera ríkissjóð sjálfbæran ekki síðar en árið 2013 og til þess þarf að grípa til margvíslegra aðgerða sem hafa ekki einungis áhrif á fjölskyldur í landinu og fyrirtæki heldur á heilu sveitarfélögin, fyrir utan náttúrlega ríkissjóð sjálfan.

Ég kem upp til að ræða við hæstv. fjármálaráðherra um áhrif þeirra aðgerða í ríkisfjármálum sem varða sveitarfélögin og hvernig niðurskurðaraðgerðir ríkisvaldsins munu eftir atvikum bitna á fjárhagi sveitarfélaga hringinn í kringum landið. Það er einu sinni svo að opinber störf víða um land eru afskaplega mikilvæg fjárhagslegri afkomu sveitarfélaga á hverjum stað. Mig langar, frú forseti, að nefna Norðurþing sem dæmi en þar hefur íbúum á undanförnum 12 árum fækkað um 15% á sama tíma og landsmönnum hefur fjölgað um sömu hlutfallstölu. 800 störf hafa þar tapast á 20 árum sem er um 32% af störfum í héraði. Nú horfir svo við að opinberum störfum, sem eru stór hluti af atvinnutækifærum á þessu svæði, mun væntanlega fækka. Enda þótt mjög hafi verið dregið í land í niðurskurði í heilbrigðismálum er augljóst að sóknarfærin eru altjent ekki mikil á þessu sviði fyrir sveitarfélagið, svo ég taki það sem dæmi um dæmigert landsbyggðarsamfélag, og má búast við því að tekjur þess af opinberum störfum dragist saman á næstunni.

Augljóst er að Norðurþing á ekki eitt sveitarfélaga við þennan vanda að glíma. Þess mun að líkindum sjá stað hringinn í kringum landið á komandi árum. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra hvaða áhrif fækkun ríkisstarfsmanna hafi og muni hafa á fjárhag sveitarfélaga og hver áhrifin muni verða á næstu árum og hvort einhver mæling hafi farið fram á því sviði. Hvar gætir þessara áhrifa mest og hvar gætir þeirra minnst? Hvar hefur ríkisstarfsmönnum fjölgað mest á sl. 10 árum og hvar hefur þeim fækkað mest á sama tíma?