139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

áhrif fækkunar ríkisstarfsmanna á fjárhag sveitarfélaga.

242. mál
[12:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi umfang starfanna aftur þá er það sem sagt niðurstaðan þegar þetta er skoðað núna að fækkunin mæld í stöðugildum eða ársverkum er tæp 5%. Það svarar um leið furðufréttum sem voru í gangi fyrr í vetur eða haust að þarna hefði þvert á móti orðið fjölgun. Einhvers staðar var því komið af stað úti í bæ sem er því miður ekki, það er ekki eins og það sé ánægjulegt að þurfa að upplýsa um þessar tölur. Ég minni bara aftur á að þetta þýðir ekki endilega sambærilega fækkun starfsmanna því að launaumsvifin eru sem sagt mæld í stöðugildum og ársverkum.

Varðandi samfélagsleg áhrif fjárlaga þá fagna ég því og tel það hið besta mál að þau séu skoðuð. Af veikum burðum er auðvitað reynt að átta sig á áhrifunum í fjármálaráðuneytinu og í fjárlagavinnunni en þar nálgast menn málið kannski meira út frá þeirri hlið að ná þurfi fram tilteknum markmiðum í ríkisbúskapnum, draga úr halla og ná jöfnuði. Það þýðir ekki þar með að í fjármálaráðuneytinu og annars staðar þar sem að þessu er unnið séu sálarlausar vélar sem ekki séu meðvitaðar um að allt hafi þetta áhrif.

Það sem ætti líka að auðvelda mönnum slíka vinnu er að nú færum við okkur í auknum mæli yfir í rammafjárlög til tveggja ára í senn og reynum að leggja niður fyrir okkur rammann lengra inn í framtíðina sem aftur gerir mönnum kleift að skoða það og meta fyrir fram. Menn þurfa þá ekki að bíða fram að hausti eftir því að fjárlagafrumvarp komi fram til að átta sig á hvað sé þar á ferðinni. Það á t.d. að liggja nokkuð ljóst fyrir núna við hverju megi búast í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012. Menn geta þá byrjað að spá í samfélagsleg og byggðaleg áhrif slíks, áhrif á jafnrétti kynjanna og annað sem þar er undir og sjálfsagt er að skoða. Ég hef því ekkert nema gott um það að segja að fjárlaganefnd geri sig gildandi og hafi frumkvæði í þeim efnum.