139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

kostnaðargreining á spítölum.

233. mál
[13:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Heilbrigðisráðuneytið hefur unnið að því undanfarin missiri að koma á samræmdri kostnaðargreiningu hjá heilbrigðisstofnunum. Sú vinna hefur verið í gangi þó henni sé alls ekki að fullu lokið. Hún hefur verið hvað mest unnin á stóru spítölunum í höfuðborginni.

Varðandi kostnað á spítölum er mikilvægt að huga að því að ná fram sem bestri nýtingu á aðstöðu og mannafla eins og fram hefur komið í fyrirspurninni. Í fámennu landi eins og Íslandi er ljóst að óhagkvæmt er að veita ýmsa sérhæfða flókna og dýra þjónustu þar sem um háan fastan kostnað er að ræða á fleiri en einum stað. Ef minnsta starfhæfa einingin á tilteknu sérsviði annar heildarþörf þjónustunnar í landinu, jafnvel meira til, er ljóst að það að halda úti fleiri slíkum einingum er dýrari kostur þó að slíkt geti verið æskilegt út frá byggðarlegum sjónarmiðum og öðrum þáttum. Ef um einfaldari og almennari þjónustu er að ræða er ekkert því til fyrirstöðu að hægt sé að veita hana með jafnhagkvæmum hætti á minni stöðunum og þeim stærri. Þá er umfang þjónustunnar á upptökusvæði stofnunarinnar það mikið að aðstaða og mannafli nýtist til fulls. Þetta er auðvitað spurning um nýtingu á hverjum stað.

Við matið þarf jafnframt að taka með í reikninginn kostnað vegna stoðdeildarstarfsemi sem nota þarf vegna viðkomandi þjónustu. Umdæmissjúkrahús ættu því að geta annast ákveðna sérhæfða þjónustu með jafnhagkvæmum hætti og Landspítali að fullnægðum ákveðnum skilyrðum. En hvert tilfelli þarf þó að greina sérstaklega. Ef miðað er við framangreindar forsendur á minnstu stofnunum landsins með fámennustu þjónustusvæðin er líklegt að kostnaðargreining leiði í ljós að aðeins sé hagkvæmt að veita þar frumþjónustu. Þar ber að hafa í huga að sömu þjónustu má í sumum tilfellum veita á legudeild í staðinn fyrir göngudeild sömu stofnunar. Það er eins og kemur fram í fyrirspurninni að lega sjúklinga eftir stóraðgerðir getur verið hagkvæmari á stofnunum úti í hinum dreifðu byggðum í stað þess að halda dýru plássi inni á spítalanum í höfuðborginni.

Að lokum þarf að hafa í huga að við skipulag og rekstur heilbrigðiskerfisins er kostnaðurinn við að veita þjónustuna aðeins einn af mörgum þáttum sem þarf að taka tillit til og það liggur kannski í spurningunni. Meðal annars þarf að huga að kostnaði notenda við að sækja þjónustuna, samgöngum á viðkomandi svæði og nálægð við aðrar heilbrigðisstofnanir. Það verður að segjast alveg eins og er að það þarf að vinna miklu betri gagnagrunn og upplýsingar til að geta lagt faglegt mat á kostnað á hverju einstöku svæði. Það þarf líka að samræma þessa þjónustu yfir landið vegna þess að þrátt fyrir umræðuna um að jafnræðis hafi ekki verið gætt þá kemur í ljós að það er ekki jafnræði á milli svæða í landinu. Þá er ég ekki að tala um höfuðborg og landsbyggð heldur á milli landsvæða utan höfuðborgarinnar. Ég hef aldrei notað hugtakið „litlir landspítalar“ heldur þvert á móti gert ég mér grein fyrir því að hér er um að ræða stofnanir sem veita takmarkaða þjónustu sem er afar mikilvæg í heimabyggð. Það sem menn voru að samræma í þessum fyrstu niðurskurðarhugmyndum var að reyna að reikna út hver væri eðlilegur meðaltalslegudagafjöldi miðað við upplandið, þ.e. byggðina á hverjum stað, og reyna að samræma reglurnar þar á milli. Það reyndist of einfaldur mælikvarði. Þess vegna var litið til annarra þátta sem eru einmitt fjarlægðir sem við nefndum hvort hægt væri að sækja þjónustuna annað, öryggið á viðkomandi stað o.s.frv. Þessu var öllu saman bætt við. Ég skal fúslega viðurkenna að það er þess vegna sem stillt er upp fyrir næsta ár hugmyndum um að hér verði bakhópur eða samráðshópur sem fylgist með breytingunum sem boðaðar eru um að þetta þurfi að endurskoða enn frekar að fenginni reynslu og með nánari skoðun og kostnaðargreiningu á þjónustunni á ýmsum stöðum.