139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

Varnarmálastofnun.

317. mál
[13:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hófstillta ræðu og fyrir að sjá í gegnum þetta allt saman. Hv. þingmaður staðhæfir að þetta gangi þvert gegn almennri skynsemi. Gengur það gegn almennri skynsemi að hafa á þessum örstutta tíma sem við höfum um þetta mál vélað náð fram hagræðingu sem hv. þingmaður getur séð með því að bera saman fjárlög í fyrra og fjárlög fyrir næsta ár? Með öðrum orðum, á milli ára eru sparaðar 500 millj. kr. Stofnunin hefur verið rekin fyrir 500 millj. kr. meira. Á sama tíma standa menn undir alþjóðlegum skuldbindingum og öllum verkefnum stofnunarinnar. Ég tel þá ekki með þær 200 millj. kr. sem þar fyrir utan var búið að taka frá stofnuninni. Samt sem áður blasir við að henni gengur mjög vel að standa undir lögboðnum verkefnum sínum. Það er því algerlega fráleitt að halda því fram að menn hafi ekki haft skýran tilgang. Menn voru að hagræða, skera burt fitulag og fá meira fyrir peninga skattborgaranna án þess að draga úr þeim verkefnum sem menn standa að til að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum.

Hv. þingmaður segir að byrjað sé á öfugum enda. Það sama hafa aðrir hv. þingmenn sagt sem hafa tekið til máls um þetta á opinberum vettvangi. Herra trúr, ég spyr, frú forseti: Lásu þessir hv. þingmenn ekki heima: Lásu þeir ekki gögnin sem lögð voru fyrir nefndina? Hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir vísar til skýrslu og vinnu sem fór fram í aðdraganda þessarar breytingar. Hvað kemur í ljós í skýrslunni? Nákvæmlega það sama og menn eru að gera núna. Í lok skýrslunnar er teiknað upp hvernig skýrsluhöfundum finnst heppilegast að skipta upp störfum Varnarmálastofnunar. Og það er gert, eins og þar segir, með því að öryggisvottanir og þjóðaröryggishluti flytjast til ríkislögreglustjórans, utanríkispólitísku þættirnir, milliríkjasamningar og samningagerð flyst til utanríkisráðuneytisins og önnur verkefni samkvæmt varnarmálalögum flytjast til Landhelgisgæslunnar, þó með þeim fyrirvara að utanríkisráðuneytisstjóranum og ráðuneytisstjóra í innanríkisráðuneytinu er falið að kanna ýmsar hugmyndir sem komu m.a. upp í verkefnisnefndinni en eru líka reifaðar í skýrslunni sem ég vísaði til, um hvort koma megi einhverjum verkefnum annars staðar fyrir. (Gripið fram í.) Ef fært er til er það gert í þágu skattgreiðenda. Svo spyr hv. þingmaður: Af hverju var það ekki gert? Þá er rétt að vísa til þess, frú forseti, að þegar ég lagði frumvarp mitt fram þá taldi ég þurfa ákveðinn tíma til þess. Því var breytt. Man hv. þingmaður eftir því að skorið var framan af því? Gildistökunni var seinkað. Þrír mánuðir voru teknir. Man hv. þingmaður eftir því? Var það utanríkisráðherrann sem hafði frumkvæði að því? Var það stjórnarliðið sem hafði frumkvæði að því? Nei. Það voru hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem höfðu frumkvæði að því. Flóknara er málið ekki. (Gripið fram í.)

Menn eru einungis að reyna að gera það besta sem hægt er í stöðunni. Langmestu máli skiptir að tryggja starfsöryggi starfsmanna. Ég lagði langmesta áherslu á það og það liggur alveg ljóst fyrir, eins og hv. formaður utanríkismálanefndar hefur m.a. lýst í fjölmiðlum, að ráðningarsamband starfsmanna flyst yfir til Landhelgisgæslunnar utan þeirra sem munu koma til starfa í utanríkisráðuneytinu eða hjá ríkislögreglustjóra.

Svo undrast hv. þingmaður það sem hún kallar fádæma klúður að menn skuli velta því fyrir sér að leggja niður Varnarmálastofnun. Ja, herra trúr, frú forseti. Hvaðan kom hugmyndin upphaflega? Hvaða flokkur gekk fyrst fram fyrir skjöldu og mótmælti því að hún yrði í fyrsta lagi sett á fót? Það var Sjálfstæðisflokkurinn. Svo burðast utanríkisráðherra við að framfylgja af öllum flokkum stefnu Sjálfstæðisflokksins. Hverjir verða reiðastir, frú forseti? Það eru hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður spyr mig um kostnaðinn og ég get fullyrt við hv. þingmann að kostnaðurinn rúmast innan fjárheimilda stofnunarinnar enda hefur hún töluvert rúmt fé til ráðstöfunar, að við teljum núna. Kostnaðurinn er við gerð skýrslunnar sem ég vísaði til áðan, þóknanir til verkefnishópsins og úttekt rekstrargreiningar Capacent á stofnuninni. (REÁ: Hve mikið?) Ég veit ekki hve mikið, (Forseti hringir.) ég skal bara vera ærlegur við hv. þingmann um það. En þetta eru ekki miklir fjármunir. Þeir fjármunir sem hafa sparast, 700 millj. kr., eru hins vegar töluverðir.