139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

Varnarmálastofnun.

317. mál
[13:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna og vil fá að bæta aðeins í púkkið. Þegar frumvarpið var til umræðu í þinginu taldi ég að við værum að byrja á öfugum enda eins og kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur. Það var ekki vegna þess að ég væri að leggjast gegn því að Varnarmálastofnun yrði lögð niður. Ég taldi hins vegar að við ættum að byrja á því að móta okkur skýra stefnu, móta okkur skýra öryggis- og varnarstefnu, skilgreina hvaða verkefni það eru sem við viljum sinna. Síðan færum við í að breyta skipaninni og stjórnsýslunni hér á landi og það ætti að koma síðast að við legðum niður Varnarmálastofnun.

Ítrekað hefur verið bent á að þannig eigi menn að vinna þegar farið er í sameiningar eða niðurlagningar á stofnunum. Það hefur ekki verið gert hér. Það er mjög greinilegt í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að hann er í vörn með þetta mál og (Forseti hringir.) honum líður ekki vel með þetta verkferli. Ég hvet ráðherrann og auglýsi eftir því að farið verði í (Forseti hringir.) vinnu sem lofað var varðandi öryggis- og varnarstefnu Íslands.